Ragnar Örn Bragason, leikmaður Þórs Þorlákshafnar, var til tals hjá Atla Arasyni í hlaðvarpsþættinum Undir Körfunni. Ragnar ræðir ferill sinn í efstu deild á Íslandi, fyrirmyndir sínar úr deildinni og margt fleira í viðtalinu.
Ein af fyrirmyndum Ragnars er KR-ingurinn Brynjar Þór Björnsson.
„Ég hef alltaf elskað að horfa á Brynjar Þór Björnsson spila körfubolta,“ sagði Ragnar Örn.
Ragnar hefur margoft spilað við Brynjar á sínum ferli á Íslandi. Ásamt því að öfunda skotstíl Brynjars fyrir utan þriggja stiga línuna segist Ragnar „alveg til í að vera jafn smooth og hann í að vera fantur.“
„Ég held að hann geti verið sammála mér að hann hafi heldur ekkert voðalega gaman að keppa á móti mér. Ég hef gaman af því að gefa honum létt olnbogaskot og fá það til baka. Ég man þegar ég var í ÍR, þá fékk ég heldur betur að finna fyrir honum. Þá meiddi ég hann eitthvað og hann lét mig heldur betur finna fyrir því,“ sagði Ragnar og hló.
„Hann fékk þá léttan olnboga frá mér og ég fékk það þrefalt til baka í kjálkann, og ekkert dæmt. Eftir það þá hefur verið skemmtilegur barningur á milli okkar, en hann hefur meira að segja spurt hvort það sé eitthvað að mér þegar ég er rólegur í einhverjum leik. Það er búið að vera mjög gaman að spila á móti honum.“
„Vonandi eru engir dómarar að hlusta svo við fáum að kýtast aðeins,“ sagði Ragnar að lokum um einvígi hans og Brynjars á vellinum. Viðtalið allt má nálgast hér, en næsti leikur þeirra tveggja er 9. desember, þegar KR-ingar eru í heimsókn í Þorlákshöfn.