spot_img
HomeFréttirRagnar Gerald með 42 stig: Fékk að leika mér aðeins

Ragnar Gerald með 42 stig: Fékk að leika mér aðeins

Höttur rúllaði yfir ÍA í kvöld er liðin mættust í 1. deild karla 131-70. Skagamenn mættu með laskað lið en Hattarmenn hafa farið mjög vel af stað í deildinni.

 

Ragnar Gerald Albertsson átti frábæran leik fyrir Hött og var með 42 stig og 7 stoðsendingar. Karfan.is heyrði í kauða í kvöld eftir leikinn þar sem hann sagði meðal annars að þetta væri það mesta sem hann hefði skorað í einum leik í meistaraflokki.

 

„Við vissum að við ættum að vinna þennan leik þvi að þeir mættu bara með sjö leikmenn og þar af vantaði 3 lykilmenn. Við vorum komnir mikið yfir snemma og vorum að spila vel. Þannig að það leyfði mér að leika mer aðeins og skjóta boltanum mikið.“ sagði Ragnar.

 

Ragnar er uppalinn í Keflavík en spilaði einnig með Hetti fyrir tveim árum í 1. deildinni þegar liðið vann hana með nokkrum yfirburðum. Ragnar lék svo með Keflavík í fyrra en ákvað að fara aftur til Egilsstaða og spila fyrir Viðar Örn Hafsteinsson þjálfara liðsins.

 

“Í fjórða leikhluta voru þeir bara hættir og eg held að eg hafi verið með 30 stig fyrir fjórða leikhluta og Viðar  leyfði mer að spila aðeins meira til að ná 40 stigunum.“

 

Aaron Moss var með aðra þrefalda tvennu tímabilsins í vetur þegar hann skilaði 23 stigum, 16 fráköstum og 12 stoðsendingum á innan við 25 mínútum. Ragnar var ánægður með innkomu hans í liðið.

 

„Hann lýtur mjög vel út. Gaman að spila með honum og honum finnst gaman að finna opna mannin og láta boltann ganga vel. Sem er mjög gott fyrir okkur þvi við erum með margar skyttur sem njóta sín þegar hann dregur varnarmenn að ser og finnur okkur fyrir utan. Svo er hann algjört skrímsli í fráköstunum lika sem er alltaf gott.“

 

Höttur er ósigrað eftir fjóra leiki í 1. deildinni og ætlar liðið sér greinilega að fara beint uppí úrvalsdeild aftur. Sami kjarni og lék þar á síðasta tímabili er áfram fyrir utan að Eysteinn Bjarni og Tobin Carberry yfirgáfu liðið. Byrjunin er sannfærandi og ekki skemmir fyrir að leikmenn eins og Ragnar Gerald virðast vera að finna sig á Egilsstöðum.

 

Mynd / Gunnar Gunnarsson – Austurfrétt.is

Fréttir
- Auglýsing -