spot_img
HomeFréttirRagnar: Flýti mér hægt

Ragnar: Flýti mér hægt

Miðherjinn Ragnar Ágúst Nathanaelsson vakti verðskuldaða athygli á tímabilinu með Þór Þorlákshöfn. Eflaust eru þeir margir sem spá því þessa dagana að Ragnars njóti ekki við næstu leiktímabil enda ættu lið í stærri deildum í stærri löndum eflaust ekki í vandræðum með að nýta sér þennan öfluga og hávaxna leikmann.
 
 
„Ef það kemur gott tilboð frá almennilegu liði með almennilegan þjálfara þá fer maður út en það hafa ekki verið neinar viðræður í gangi. Ég hef verið í einhverjum samskiptum við umboðsmenn en ætlaði mér aldrei að taka neinar ákvarðanir á meðan ég var að klára tímabilið hér heima með Þór. Maður skoðar þetta meira og betur á næstunni,“ sagði Ragnar sem var með 15,4 stig og 12,9 fráköst að meðaltali í leik í Domino´s deildinni.
 
„Nú notar maður tímann til þess að hvíla sig aðeins en svo er bara hörku prógramm í Þorlákshöfn í sumar og svo tekur landsliðið við. Ef maður stendur sig með landsliðinu er aldrei að vita hvað gerist í framhaldinu. Auðvitað er maður heitur fyrir atvinnumennskunni og það er vilji til að prófa deildir sem eru mun sterkari en sú íslenska,“ sagði Ragnar sem er sáttur með tímabilið í Þorlákshöfn.
 
„Ég var ánægður með framfarirnar hjá mér en hefði auðvitað viljað komast lengra í deildinni en eins og ég legg þetta upp hjá mér þá finnst mér ég geta spilað á hærra „leveli“ en í íslensku deildinni. Ég flýti mér samt hægt í þessum efnum, ef ég fer ekki út fyrir næsta tímabil þá verð ég bara hrikalegur hér heima, ég er bara að skoða þetta á rólegu nótunum eins og er.“
  
Fréttir
- Auglýsing -