spot_img
HomeFréttirRagna Margrét sýknuð af kröfu dómaranefndar

Ragna Margrét sýknuð af kröfu dómaranefndar

Rögnu Margréti Brynjarsdóttur leikmanni Vals verður ekki gerð refsing vegna háttsemi sinnar í viðureign Vals og Snæfells í Domino´s deild kvenna þann 8. janúar síðastliðinn. Frá þessu er greint á heimasíðu Körfuknattleikssambands Íslands en þetta mál er það fyrsta sinnar tegundar í íslenskum körfuknattleik þar sem dómaranefnd KKÍ kærir mál inn á borð aga- og úrskurðarnefndar sambandsins.
 
 
Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ var klofin í niðurstöðu sinni en það var niðurstaða meirihluta nefndarinnar að ekki væri tilefni til viðurlaga vegna háttsemi Rögnu Margrétar. Í viðureign Vals og Snæfells þann 8. janúar síðastliðinn fékk Ragna Margrét dæmda á sig óíþróttamannslega villu vegna olnbogaskots sem hún gaf leikmanni Snæfells.
 
Um málið má lesa í heild sinni hér en þar segir m.a.
 
Meirihluti Aga- og úrskurðarnefndar KKÍ telur ekki tilefni til viðurlaga vegna háttsemi Rögnu Margrétar Brynjarsdóttur, leikmanns Vals, í leik Vals og Snæfells í Dominosdeild kvenna, sem fram fór í Vodafonehöllinni 8. janúar 2014.
 
Í 4. mgr. 6. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál segir að aga- og úrskurðarnefnd skuli bundin af ákvörðun dómara leiks, t.d varðandi brottvísun eða tæknivillu. Í 7. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segir hins vegar að aga- og úr-skurðarnefnd sé heimilt að taka til meðferðar kæru eða ábendingu á agabroti sem framið var án vitundar dómara leiksins eða dómari ekki vísað viðkomandi af leikvelli eða keppnisstað, ef gögn sýna á óyggjandi hátt að brot hafi verið framið.
 
Ákvæði þessi stangast á í tilfelli eins og því sem hér er til umfjöllunar. Verður því að leggja mat á hvort ákvæðið eigi að ráða. Meirihluti nefndarinnar telur að horfa verði til þess að mikilvægt sé að ákvarðanir dómara, sem sér atvik vel og dæmir á þau í viðkomandi leik, standi, enda veldur það óvissu ef leikmenn og dómarar mega eiga von á því að ákvarðanir dómara séu endurskoðaðar að leik loknum. Að okkar mati kemur helst til greina að breyta slíkum ákvörðunum eftir á þegar dómari hefur ekki séð atvik eða mikilvægir þættir þess farið fram hjá honum. Í þessu tilfelli var dómari vel staðsettur, sá atvikið og dæmdi óíþróttamannslega villu á leikmanninn. Sú ákvörðun stendur og er því sýknað af kröfu dómaranefndarinnar.
 
Minnihluti aga- og úrskurðarnefndar KKÍ taldi rétt að Ragna Margrét myndi sæta eins leiks banni og einn nefndarmaður vék sæti í málinu vegna vanhæfis.
 
Tengdar fréttir:
  
Fréttir
- Auglýsing -