spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaRaggi stórskytta stóð við stóru orðin - 100% þriggja stiga skytta

Raggi stórskytta stóð við stóru orðin – 100% þriggja stiga skytta

Ragnar Ágúst Nathanaelsson, betur þekktur af sumum sem Raggi risi, stóð aldeilis við stóru orðin á Twitter í vikunni. Raggi hafði lofað að taka þrist í föstudagsleik Hamars gegn Ármanni og körfuboltasamfélagið beið í ofvæni eftir að sjá hvort það tækist. Hann stóð við loforðið og setti þristinn líka niður!

Fyrsta kerfi leiksins hjá Hamri átti einmitt að koma kvöðinni frá enda snerist það um að Raggi fengi opinn þrist upp á toppi. “Halldór var búinn að teikna upp kerfi og við búnir að fara yfir það, fyrst ég var búinn að neyða hann í það. Þótt ég klúðraði því smá átti ég að enda með boltann upp á topp,” sagði miðherjinn knái sem á að baki nærri því 400 leiki í meistaraflokki.

Þó kerfið hafi aðeins klikkað þá endaði það á réttum stað með réttum manni. Ragnar segir að tilfinningin að fá boltann vitandi að þristur væri í vændum var ekki mikið öðruvísi en hinn daginn; “Nei, hún var nú ekki mikið öðruvísi en í öðrum kerfum. Nema það að ég klúðraði smá kerfinu sem var teiknað upp og æft daginn fyrir leik. Örlítið skrítið samt að vera spiluð vörn á mig fyrir utan línuna, Óli var vissulega búinn að “scout-a” okkur.”

Ólafur Þór Jónsson, þjálfari Ármanns, hafði vissulega gert ráð fyrir mögulegum þristi hjá Ragga en var ekki mjög stressaður út af því. Hann hefði glaður tekið því ef að Ragnar hefði reynt við fleiri þrista. “Ég bjóst ekki við því að skotið kæmi í fyrsta playi og hvað þá að hann myndi setja það,” sagði Óli um skotið örlagaríka. Þó þristur Ragga hafi ekki verið banabitinn fyrir Ármann þá sveið hann samt.

Ég viðurkenni að þetta fór verulega í taugarnar á mér í augnablikinu en þegar rykið er sest er Raggi auðvitað það mikill toppmaður að maður getur alveg haft gaman af þessu í dag.

Þjálfari andstæðinganna hafði kannski ekki mikla trú á skotinu, en hvað með stórskyttuna sjálfa? “Já, ég hafði góða tilfinningu fyrir skotinu, búinn að setja nokkra í upphitun,” sagði Raggi um fyrsta þrist sinn á ferlinum.

Raggi hefur eflaust lengi verið að undirbúa þetta örlagaríka skot.

Ragnar er þar með kominn með hundrað prósent nýtingu í þriggja stiga skotum á ferlinum, sem ekki margir geta stært sig af. Hann veltir fyrir sér að halda sig bara við þennan eina og láta gott heita, enda varla hægt að toppa þetta. “Já ég held það. Enda ferilinn með 100%.

Leikurinn sjálfur fór vel hjá liði Ragga og Hamarsmenn skildu við Ármenninga 124-109. Landsliðsmaðurinn var að eigin sögn ekki mikið að hugsa um þristinn eða um að taka annan eftir að hann var frá. “Nei, það var ég nú meira að reyna að klára leikinn, var hörku leikur svo við þurftum að hafa okkur alla við til að ná sigrinum,” sagði Ragnar um leikinn, en Ármenningar héldu vel í við Hamar í leiknum. Þeir náðu m.a.s. að taka forystuna á 5. mínútu seinni hálfleiks. Það hafði samt lítið að segja þegar Raggi tróð í næstu sókn og fékk villu og vítaskot að auki til að taka forystuna enn á ný. Ármenningar náðu ekki aftur forystu í leiknum og því fór sem fór.

Ragnar á að baki 49 landsleiki með Íslandi.

Hamarsmenn eru þá einum sigri á eftir Álftanesi sem er í efsta sætinu í 1. deild karla. Hvergerðingar gætu mögulega komist beint upp ef þeir ná að setja Álftnesinga fyrir neðan sig, en þeim dugar ekki að jafna þá að sigrum, enda hafa þeir tapað báðum leikjum hingað til gegn Álftanesi og hafa því ekki innbyrðis á þá. Hamar á leik 10. febrúar í Frystikistunni gegn toppliðinu, eru þeir eitthvað að horfa sérstaklega á þann leik? “Vissulega erum við að ræða og hugsa um leikinn en það eru samt tveir hörku leikir framundan hjá okkur sem við þurfum að klára,” segir Hvergerðingurinn hávaxni og á þar við um leikina gegn Hrunamönnum og Fjölni.

Að lokum, hvað finnst Ragnari um líkurnar á því að lið hans komist upp í deild þeirra bestu? “Ég held það séu mjög góðar líkur á því. Það er samt sem áður allt í okkar höndum, við verðum að klára restina af leikjunum til að komast upp.

Hvað sem því líður þá er vissulega flott að vera 218 cm miðherji með 100% þriggja stiga nýtingu í meistaraflokki karla.

Titilmynd fengin að láni með góðfúslegu leyfi Sunnlenska.is

Fréttir
- Auglýsing -