00:02
{mosimage}
(Rafael Silva)
Unglingaráð körfuknattleiksdeildar Tindastóls hefur náð samkomulagi við portúgalska þjálfarann Rafael Silva um að taka að sér yfirþjálfun yngri flokka hjá deildinni á komandi keppnisímabili. Auk þess að þjálfa fjóra yngri flokka mun hann veita nýstofnuðum Körfuboltaskóla Tindastóls forstöðu. Þetta kemur fram á www.tindastoll.is
Silva var nú síðast aðstoðarþjálfari hjá skoska atvinnumannaliðinu Scottish Rocks, sem leikur í Bresku atvinnumannadeildinni BBL en fékk sig lausan frá liðinu gagngert til að taka við yfirþjálfarastöðunni hjá Tindastóli. Hann er 29 ára, með reynslu bæði sem leikmaður og þjálfari úr heimalandi sínu Portúgal, Bandaríkjunum og frá Englandi/Skotlandi.
Silva mun leiða faglega hluta stúlknaátaks sem fer af stað í haust og verða þrír af þeim flokkum sem hann mun þjálfa, stúlknaflokkar. Verður stúlknaátakið fyrsta skrefið í uppbyggingu á framtíðar meistaraflokki kvenna hjá Tindastóli.
Nánar er hægt að lesa um ráðningu Silva á heimasíðu Tindastóls með því að smella hér.
Karfan.is náði á Karli Jónssyni formanni unglingaráðs Tindastóls og spurði hvernig honum litist á kappann og hverjar væntingarnar væru.
„Mér líst alveg meiriháttar vel á þennan kappa, hann er mjög professional og með skemmtilega sýn á málin sem hentar okkar framtíðaráætlunum vel. Hann hefur mikinn áhuga á uppbyggingar- og þróunarmálum og leist vel á þær áætlanir sem við erum með og við væntum mikils af ráðningu hans. Hér steðjaði sú ógn að okkur að við hefðum hreinlega ekki haft nægilega marga hæfa þjálfara til að þjálfa í vetur og því er þessi ráðning lykilatriði í því að við náum að manna alla flokkana okkar hæfum þjálfurum. Auk þess þurftum við atvinnuþjálfara til að leiða faglega starfið okkar áfram veginn en við ætlum að gera prógrammið okkar hérna fyllilega samkeppnishæft á við öll þau bestu í landinu.
Mynd: Rafael Silva



