Það þarf svo sem ekki að eyða mörgum orðum í umfjöllun um margfrestaðan leik FSu og ÍG í 1. deild karla sem loksins fór fram í Iðu í gærkvöld. Ef dálksentimetrar yrðu í samræmi við gæði leiksins yrðu þeir fáir. Því miður náði hvorugt liðið sér á neitt strik, en undirritaður hefur nefnilega séð býsna lipra og skemmtilega spretti frá þeim báðum fyrr í vetur. Ætli verði ekki að skrifa þetta á jólasteikina, eins og fleira? Í stuttu máli rak heimaliðið þó af sér mesta slyðruorðið í síðasta fjórðung og vann að lokum með 16 stiga mun, 84-68.
Grindvíkingarnir mættu til leiks án flestra sinna stórkanóna, sem gert hafa garðinn allfrægan í deildinni í allt haust. Þarna voru þó gamlir kunningjar af körfuboltavellinum, eins og t.d. Eggert Páls, sem kunna ýmislegt fyrir sér í fræðunum. Liðið spilaði hægan og nokkuð jarðbundinn bolta, að því er virtist með kjörorð Trabantfélagsins: „Skynsemin ræður“, fléttuð í hverja hreyfingu. Heimamenn virtust andlausir, voru hægir í sóknaraðgerðum sínum, of mikið um knattrak og hnoð í stað þess að nýta hraðann og splundra varnarleik andstæðinganna með nokkrum góðum sendingum, samleik sem hefur í gegnum tíðina verið helsta skrautfjöður liðsins.
Jafnræði var með liðunum allan fyrsta fjórðung, 17-17 eftir 10 mínútur. Eftir 16 mínútna leik höfðu gestirnir náð 7 stiga forskoti, 28-35, og fátt jákvætt við leik heimamanna, vörnin slök, sem og hittnin, og vítin fóru töluvert forgörðum að auki. Grindavíkurstrákar voru á þessu skeiði nokkuð borubrattir, hittu úr nokkrum flottum þriggja stiga skotum og virtust til alls líklegir. Ekki náðu þeir þó að halda fengnum hlut fram að hálfleik en þá munaði þremur stigum, 34-37.
Eftir þrjár mínútur í seinni hálfleik voru heimamenn komnir yfir í fyrsta sinn í langan tíma, 43-42, og þeir litu ekki við eftir það. Kjartan virðist hafa náð að vekja þá til lífsins í leikhléinu, því nú var allt annar bragur á þeim, barátta inni á vellinum og lífsmark á bekknum líka. Um miðjan þriðja leikhluta var FSu liðið komið 7 stigum yfir, 53-46, 14 stiga sveifla á 9 mínútum. Ekki munaði samt nema þremur stigum þegar síðasti leikhlutinn hófst, 59-56, en þremur mínútum seinna hafði FSu aukið forskotið um 10 stig, 74-61, og ljóst í hvað stefndi. ÍG náði ekki neinu áhlaupi þær 7 mínútur sem lifðu leiks, munurinn var þetta 13-14-15 stig, og varð mestur í blálokin, eins og áður hefur komið fram.
Hjá ÍG bar langmest á þremur máttarstólpum, þeim Haraldi Jóni Jóhannesarsyni, með 22 stig og 6 stoðsendingar, Bergvini Ólafarsyni, einnig með 22 stig auk 7 frákasta, og fyrrnefndum Eggerti Pálssyni, sem spilaði allar 40 mínúturnar sem í boði voru og setti 13 stig, auk 4 frákasta og 3 stoðsendinga. Auk þeirra skoraði Davíð Friðriksson 7 stig og Helgi Már Helgason 4, sem hann kórónaði með 7 fráköstum.
Í liði FSu var þjálfarinn Kjartan Atli Kjartansson fremstur með 22 stig, 8 stoðsendingar og 3 stolna bolta – 29 í framlag, Orri Jónsson var þó stigahæstur með 23 stig, og tók 5 fráköst, Steven Crawford skoraði 15 stig, tók 7 fráköst og varði 2 skot, Sæmundur Valdimarsson skoraði 10 stig og bætti um betur með 11 fráköstum, 3 stolnum og 3 vörðum skotum, Bjarni Bjarnason og Svavar Stefánsson voru báðir með 4 stig skráð og 6 fráköst (Bjarna vantar, auk þrists og vítis, fallega körfu spjaldið oní af 45° færi utan teigs), Eggert Guðlaugsson setti einn góðan þrist og Þorkell Bjarnason skoraði líka 3 stig.
Mynd/ Úr safni: Kjartan Atli þjálfari FSu í baráttunni gegn KFÍ fyrr á tímabilinu.
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson