spot_img
HomeFréttirRændur á leiðinni heim

Rændur á leiðinni heim

12:39

{mosimage}
(Borce Illievski)

Borce Ilievski þjálfari KFÍ hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu en hann varð illa úti þegar hann gisti á hóteli í Reykjavík nýlega og var rændur. Málið er rakið á KFÍ.is og í dag fer DV yfir málið.

Karfan.is fékk leyfi DV til að birta fréttina:

GRUNAR STARFSMANN UM AÐ HAFA RÆNT SIG

Borce Ilievski, þjálfari KFÍ í körfubolta, var rændur þegar hann var gestur á Hótel Cabin. Þjófurinn tók allt sem Ilievski var með á leið heim til Makedóníu. Í stað þess er hann fastur hér á landi og bíður eftir pappírum. Ilievski grunar hótelið um græsku því engin ummerki voru um innbrot. Hótelstjórinn hafnar alfarið ásökununum. Formaður KFÍ styður IIievski í málinu.

„Þetta var ekki alveg það sem ég átti von á hér á Íslandi. Kannski á Balkanskaganum en ekki hér,“ segir Borce Ilievski, körfuboltaþjálfari KFÍ, sem missti allt sitt í ráni á Hótel Cabin.

Ilievski skráði sig inn á hótelið 25. maí síðastliðinn. Samdægurs fór hann á Café París ásamt félaga sínum og vini Jovan Zdraveski, körfuboltamanni í Stjörnunni. Þar stoppuðu þeir í klukkutíma. Þegar Ilievski var síðan keyrður aftur á hótelið brá honum heldur betur í brún. Allt hans var horfið. Töskurnar, 50 dvd-diskar með kennsluefni um körfubolta, vídeómyndavél, sími og passinn.

„Þegar ég kom inn sá ég að það var allt tómt. Það var ekkert þarna inni. Ég var með þrjár töskur, ferðatölvu og eina litla tösku. Vegabréfið mitt og flugmiði heim var í ferðatölvutöskunni. Ég átti að fara heim degi síðar.“

Ilievski segist hafa látið starfsmenn í móttöku hótelsins vita um leið og hann uppgötvaði að allt var horfið. Hann er þó mjög ósáttur við viðhorf starfsmanna hótelsins í kjölfarið. „Strákurinn sem var að vinna var mjög dónalegur. Hann vildi ekkert hjálpa mér.“ Kærasta Jovans, sem er íslensk, kom þá á staðinn og hún fann sama viðmót frá þessum starfsmanni.

Málið var kært til lögreglu og skýrsla tekin. Þar kemur fram að gluggi hafi verið opinn á herberginu og þar hafi þjófurinn farið inn. Seinna um kvöldið fannst hins vegar taskan í öðru herbergi á hótelinu.

„Ég held að þjófurinn hafi komið inn í herbergið með lykli. Það er mín skoðun út af því við fundum töskuna í öðru herbergi rétt hjá. Það var hins vegar ekkert í henni. Þarna hvarf allur minn fróðleikur sem ég er búinn að sanka að mér.“

Pappírar Ilievskis koma til landsins frá London í þessari viku. Þá ætlar hann heim til Makedóníu og hitta fjölskyldu og vini. „Ég ætla að hlaða batteríin fyrir næsta tímabil og eyða tíma með fjölskyldunni.“

Formaður KFÍ, Ingólfur Þorleifsson, tekur undir ásakanirnar á bloggi sínu. „Það sem okkur finnst undarlegast er að hótelið segist ekki geta gert neitt þrátt fyrir að allt bendi til að starfsmaður hafi farið inn á herbergin. Tjónið er metið af lögreglu á þrjú hundruð þúsund krónur og það eru miklir peningar,“ skrifar Ingólfur á bloggið sitt.

Hann bætir við að íþróttahreyfingin sé stór og standi saman. „Það er á hreinu að hvorki ég né nokkur á okkar vegum mun gista á þessu hóteli í framtíðinni. Íþróttahreyfingin er stór fjölskylda og þessi skilaboð munu berast víða. Það er ljóst að hótelið á eftir að verða af mörgum 300.000 kallinum í framtíðinni.“

Jóna Scheving, hótelstjóri Hótel Cabin, vildi ekki tjá sig um málið en neitaði þeim ásökunum algjörlega að herbergið hefði verið opnað með lykli.

Benedikt Bóas Hinriksson – blaðamaður DV.

Fréttir
- Auglýsing -