spot_img
HomeFréttirRáðast örlög Skallagríms og Fjölnis í kvöld?

Ráðast örlög Skallagríms og Fjölnis í kvöld?

Í kvöld lýkur 21. umferð í Domino´s deild karla og þá gætu örlög Fjölnis og Skallagríms ráðist en Borgnesingar mæta í Hertz-Hellinn og leika þar einn stærsta leik tímabilsins til þessa. Botnbarátta deildarinnar hefur verið blóðug og hún getur ráðist í kvöld! Viðureign ÍR og Skallagríms verður í beinni á Stöð 2 Sport en ef ÍR vinnur tryggir liðið sér áframhaldandi sæti í deildinni og fellir þar með Fjölni og Skallagrím. Ef Borgnesingar vinna þá sendum við stærðfræðingana okkar á ykkur síðar í kvöld.
 
 
Ef við svo lítum yfir til Keflavíkur og Njarðvíkur þá eru þessi tvö öflugu körfuboltavígi einnig að standa fyrir stórleikjum í kvöld. Snæfell er að spila hreinan úrslitaleik um sæti í sjálfri úrslitakeppninni þegar þeir heimsækja Keflavík, Hólmurum dugir ekkert annað en sigur til að vera með. Keflvíkingar eru ekki úr allri hættu og þurfa sigur í kvöld og þá geta þeir bókað farseðilinn í úrslitakeppnina endanlega.
 
Í Ljónagryfjunni er önnur staða uppi á teningnum, bæði Njarðvík og Stjarnan verða í úrslitakeppninni, það er staðfest. Nú erum við að horfa á röðun, þ.e. baráttuna um heimaleikjaréttinn. Njarðvík í 4. sæti með 24 stig en Stjarnan í 5. sæti með 22 stig. Heimavallarárangur Njarðvíkinga hefur oft verið betri, 6-4 staða á meðan Garðbæingum hefur lítið gengið á útivelli þetta tímabilið (3-7).
 
Í öllu falli þá eru þrjú körfuhús að bjóðast til að hýsa ykkur í kvöld og þau verða með veisluborð svo látið ykkur ekki vanta! 
 
Leikir kvöldsins í Domino´s deild karla, 19:15
 
ÍR – Skallagrímur (beint á Stöð 2 Sport)
Keflavík – Snæfell
Njarðvík – Stjarnan
 
Staðan í Domino´s deild karla
Deildarkeppni
Nr. Lið U/T Stig
1. KR 19/2 38
2. Tindastóll 16/5 32
3. Haukar 12/9 24
4. Njarðvík 12/8 24
5. Stjarnan 11/9 22
6. Grindavík 11/10 22
7. Keflavík 10/10 20
8. Þór Þ. 10/11 20
9. Snæfell 8/12 16
10. ÍR 5/15 10
11. Fjölnir 5/16 10
12. Skallagrímur 4/16 8
  
Mynd/ Sigtryggur Arnar og Borgnesingar þurfa sigur og ekkert annað.
Fréttir
- Auglýsing -