spot_img
HomeFréttirPúlsinn hjá liðunum í IEX kvenna: Njarðvík

Púlsinn hjá liðunum í IEX kvenna: Njarðvík

 
Nokkuð hefur verið saxað á teiginn hjá Njarðvíkingum í sumar þar sem þær Helga Jónasdóttir og Harpa Hallgrímsdóttir verða ekki með grænum í Iceland Express deildinni á komandi tímabili. Þá verður Sigurlaug Guðmundsdóttir heldur ekki með Njarðvíkingum en Sverrir Þór Sverrisson nýráðinn þjálfari Njarðvíkinga segir að sér lítist vel á veturinn framundan þó svo félagið sé ekki komið með fullskipaðan hóp fyrir veturinn.
,,Ég er ekki alveg kominn með endanlega mynd á liðið en ég er búinn að ráða kana eins og fram hefur komið, verð einnig með stóran bosman leikmann sem ég er að ljúka við að ráða,“ sagði Sverrir Þór sem einnig hefur fengið nokkra unga og efnilega leikmenn inn í meistaraflokkinn.
 
,,Við æfðum ágætlega í maí-júlí og svo fór allt á fullt í ágúst. Þar sem ég er ekki kominn með endanlegan hóp þá bíð ég með að gefa út hversu hátt er raunhæft að stefna en ég er með stóran hóp sem er að æfa gríðarlega vel þannig að mér líst vel á veturinn,“ sagði Sverrir en hvaða lið telur hann að verði sterk á komandi tímabili?
 
,,Mér sýnist að lið eins og Keflavík, KR og Haukar verði sterk í vetur en svo á eftir að skýrast með hin liðin sem eru enn að klára að manna liðin sín eins og við, Grindavík, Hamar, Fjölnir og Snæfell."
 
 
Ljósmynd/Hilmar Bragi Bárðarson: Ólöf Helga Pálsdóttir var einn af máttarstólpum Njarðvíkurliðsins á síðasta tímabili.
 
Fréttir
- Auglýsing -