Íslandsmeistarar KR fengu í sumar nýjan þjálfara en Hrafn Kristjánsson tók við liðinu við brotthvarf Benedikts Guðmundssonar sem nú stýrir Þór Þorlákshöfn í 1. deild karla. Benedikt gerði KR að Íslandsmeisturum á síðustu leiktíð svo Vesturbæingar eiga titil að verja en miklar breytingar hafa orðið á liðinu og eins og sakir standa er Signý Hermannsdóttir hætt að sögn Hrafns þjálfara KR.
,,Staðan á KR liðinu er fín, æfingar búnar að ganga vel og stelpurnar að taka vel á því. Hópurinn verður þó ansi breyttur frá því í fyrra. Farnar frá því í fyrra eru Unnur Tara og Heiðrún Kristmunds sem báðar eru erlendis næsta tímabil og Jóhanna Björk Sveinsdóttir sem ákvað að taka sér frí vegna anna. Einnig er Signý Hermannsdóttir hætt, alla vega í bili, en við vonum eðlilega öll sem eitt að hún finni neistann fyrr en seinna og láti sjá sig í svart-hvíta búningnum á endanum. Það er vitaskuld meira en að segja það að bregðast við svona afföllum, þessar fjórar með Jenny Finora, sem ekki kemur aftur, myndu sjálfsagt gera ágætis mót í deildinni sem kjarni einhvers liðs. Í stað þessarra leikmanna höfum við fengið þær Hafrúnu Hálfdánardóttur úr Hamri, Bergdísi Ragnarsdóttur og Aðalheiði Rögnu Óladóttur úr Fjölni og Rut Konráðsdóttur úr Þór Akureyri,“ sagði Hrafn og boðar að KR liðið ætli að bíða með erlenda hjálp fram að áramótum.
,,Hvað möguleika og markmið liðsins varðar eru þau vitaskuld tvíþætt, að ná árangri og bæta hvern ásamt því að bæta hvern og einn einstakling fyrir sig og þannig liðsheildina um leið. Við höfum ákveðið að bíða með að hugsa um hjálp erlendis frá til áramóta og nýta tímabilið fram að því til að keyra innlenda mannskapinn vel í gang. Það eru stelpur í hópnum sem þurfa núna að stíga upp við þessar breytingar á liðinu og það gerist ekki nema þær fái tækifæri til þess inni á vellinum. Þær verða þá sterkari og tilbúnari í seinni hluta tímabils þegar og ef við fáum okkur erlendan leikmann til liðs við okkur. Við ætlum okkur að vera í baráttunni um dollurnar í ár en það má vera að leiðin að þeim verði aðeins önnur og grýttari en síðasta tímabil. Þetta verður annars konar áskorun sem ég er viss um að stelpurnar eru æstar í að takast á við og sigrast á,“ sagði Hrafn og er einn þeirra sem telur að komandi keppnistímabil verði jafnara en á síðustu leiktíð.
,,Þegar litið er til annarra liða er ljóst að Keflavík og Haukar eru búin að styrkja sig verulega og til alls líkleg. Hamar, Grindavík og Njarðvík hafa orðið fyrir einhverjum skakkaföllum og því spurningarmerki en þar eru sterkir leikmenn sem geta valdið usla ef þær fá sterka erlenda leikmenn sér við hlið. Snæfellingar og Fjölnisstúlkur koma inn í þetta með tvo útlendinga og unga leikmenn og verður gaman að fylgjast með hvernig þær takast á við verkefnið. Held að deildin í ár verði skemmtileg og jafnvel jafnari heilt yfir en í fyrra.“
Ljósmynd/ Jón Björn Ólafsson: Íslandsmeistarar KR hafa tekið töluverðum breytingum í sumar.



