spot_img
HomeFréttirPúlsinn hjá liðunum í IEX kvenna: Haukar

Púlsinn hjá liðunum í IEX kvenna: Haukar

 
Í sumar hafa leikmenn keppst við að ganga í raðir Hauka og eins og Karfan.is hefur þegar greint frá er Íris Sverrisdóttir nýjasti leikmaður félagsins en Íris kemur frá Grindavík. Margir veðja á að Haukar verði illir viðureignar en þó bæst hafi í hópinn mun félagið þurfa að sjá á eftir Heather Ezell, bandaríska leikstjórnandanum, sem fór hamförum með liðinu á síðustu leiktíð.
,,Það verða smávægilegar breytingar hjá okkur í Haukum, við missum Helenu Hólm og annan útlendinginn okkar Kiki Lund og svo fáum við nýjan erlendan leikmann í stað Heather Ezell sem kemur ekki aftur. Við erum enn að vinna í útlendingamálum þannig að ekki er ljóst hvenær við fáum útlending til liðsins. Við höfum fengið nokkrar sterkar stelpur til okkar í Hauka til viðbótar við þann sterka kjarna sem fyrir er, Þórunni Bjarnadóttur úr Val, Gunnhildi Gunnars og Unni Láru úr Snæfelli og Írisi Sverrisdóttir frá UMFG. Helga Jónasdóttir úr UMFN hefur einnig verið að æfa stíft með okkur undanfarið og vonast ég til að hún verði með okkur í vetur en ekki er búið að ganga frá því máli endanlega,“ sagði Henning og þá eru sterkir leikmenn einnig að koma upp úr yngri flokkum.
 
,,Við erum líka með gríðarlega efnilega leikmenn í Haukum (Íslandsmeistarar í stúlkna- og unglingaflokki sl. tímabil) og þær stelpur eru hluti af meistaraflokknum og munu halda áfram að styrkjast og þroskast í höndum eldri leikmanna liðsins. Við munum spila með okkar meistaraflokk í tveimur deildum þ.e. Iceland Express deildinni og einnig verðum við með lið í 1. deild kvenna þannig að það verða ærin verkefni fyrir allar stelpurnar í hópnum, mikið leikálag og nóg af leikjum fyrir alla,“ sagði Henning og bætti við að mikill hugur væri í félaginu fyrir komandi tímabil.
 
,,Við viljum endilega ná betri árangri en á síðasta tímabili sem var í sjálfu sér ekkert slæmur enda bikarmeistaratitill í húsi hjá stelpunum. Markmið vetrarins eru þó óljós á þessari stundu. Stelpurnar æfa mjög vel og eru óðum að ná af sé “grill-hjúpnum“ og fallegi brúni liturinn er að leka af þeim með svitadropunum,“ sagði Henning og telur ómögulegt að afskrifa nokkuð lið á komandi tímabili.
 
,,Mér sýnist mörg lið koma sterk til leiks og er ljóst að fleiri lið hafa gefið það út að þau ætla að byrja með tvo útlendinga eða allavega bæta öðrum útlending við fljótlega á tímabilinu og það gerir það að verkum að ómögulegt er að afskrifa nokkuð lið. KR, Keflavík og Hamar eru fyrirfram sterkustu liðin en útlendinga-faktorinn mun þó án efa breyta deildinni og styrk einstakra liða verulega á tímabilinu, sér í lagi þeirra sem verða með fleiri en einn. Haukar munum leika með einn útlending í vetur. Ég á von á mjög skemmtilegu tímabili, hugsanlega skemmtilegra en oft áður og ég sé í raun ekki í hendi mér að nokkurt lið stingi önnur lið af eins og gerðist í fyrra þegar KR tók öll völd í deildinni,“ sagði Henning og bætti við að lokum:
 
,,Ásvallar-herinn bíður spenntur eftir tímabilinu.“
 
Ljósmynd/ Henning verður með þéttan Haukahóp í vetur.
 
Fréttir
- Auglýsing -