Þjálfari Grindavíkurkvenna, Jóhann Þór Ólafsson, hefur nú tekið af öll tvímæli og segir Grindvíkinga senda kvennalið til leiks þetta tímabilið. Í ljósi brotthvarfs leikmanna í sumar var íhugað í Röstinni að senda ekki lið til keppni á næstu leiktíð en nú er víst að gulir verða með. Jóhann býst þó við að KR, Keflavík, Hamar og Haukar verði erfiðir viðureignar í vetur.
,,Við verðum með lið í vetur og erum hæfilega bjartsýn. Við höfum náttúrulega mikið misst en ef okkar plön varðandi leikmannamál ganga eftir þá verðum við með mjög frambærilegt lið sem verður líklegt til afreka. Ég verð með kana og svo ætla ég að sjá hvernig mannskapurinn verður í sambandi við annan útlending,“ sagði Jóhann en hvaða lið telur hann að verði í sterkari kantinum?
,,Keflvíkingar verðar sterkar ásamt KR, Hamar og Haukum. Annars hefur mikið breyst og ég er á því að þetta verði hörku mót,“ sagði Jóhann sem hefur mátt sjá á eftir Jovönu Lilju Stefánsdóttur, Írisi Sverrisdóttur og Ingibjörgu Jakobsdóttur. Harpa Hallgrímsdóttir hefur þó snúið heim frá Njarðvík og verður illviðráðanleg í teignum með systur sinni Helgu en samanlagt tóku þær systur um 20 fráköst að meðaltali í leik á síðasta tímabili.
Ljósmynd/ Petrúnella Skúladóttir er einn reyndasti leikmaður Grindavíkurliðsins.



