KFÍ og Hamar mættust í kvöld í 1. deild karla. Upprunalega hafði leikurinn átt að fara fram á föstudaginn en honum hafði verið frestað vegna slæms veðurs.
Hamarsmenn mættu einungis með 7 leikmenn til leiks en KFÍ var án þeirra Kjartans Steinþórssonar, Jóhanns Friðrikssonar og fyrirliðans Gunnlaugs Gunnlaugssonar sem allir voru frá vegna meiðsla.
Jafnræði var með liðunum framan af fyrsta leikhluta og skiptust þau á að skora en KFÍ leiddi 13-12 eftir rúmlega 5 mínútna leik. Gestirnir skelltu hins vegar í lás eftir það og skoruðu 11 stig á móti engu það sem eftir lifði leikhlutans og leiddu með 10 stigum, 13-23, í byrjun annars.
Restin af leiknum var svo eins og fyrsti leikhluti hafði endað. Hamars menn skoruðu grimmt úr hraðaupphlaupum og eftir gott samspil undir körfunni á meðan sóknarleikur KFÍ var tilviljunarkenndur sem skein vel í gegn í stoðsendingarfjölda liðanna en gestirnir enduðu með 23 á móti 9 frá heimamönnum.
Lokastaðan 62-85 fyrir gestina úr blómabænum sem eru í 6. sæti og í harðri baráttu við ÍA og Breiðablik um laust sæti í úrslitakeppninni.
Samuel Prescott Jr. fór mikinn fyrir gestina og endaði með 33 stig, 13 fráköst og 7 stoðsendingar. Þorsteinn Gunnlaugsson skoraði 15 stig og tók 10 fráköst, Sigurður Orri Hafþórsson, fyrrum leikmaður KFÍ, setti 13 stig og Vestfirðingurinn Kristinn Ólafsson skoraði 12 stig, þar af 10 í fyrri hálfleik, auk þess sem hann tók 8 fráköst.
Hjá KFÍ var Birgir Björn Pétursson stigahæstur með 20 stig auk þess sem hann tók 8 fráköst. Florijan Jovanov kom næstur með 13 stig, öll í fjórða leikhluta, og Nebojsa Knezevic setti 10 stig og tók 8 fráköst.
Umsögn: Tjörvi



