Fjórir leikir fóru fram í NBA deildinni í gær og í nótt. Oklahoma landaði sigri gegn Toronto, New Orleans lagði Boston, Houston hafði betur gegn Minnesota og Portland landaði sigri gegn Clippers.
Portland er heitasta lið NBA deildarinnar um þessar mundir en liðið vann sinn þrettánda leik í röð er Clippers urðu fyrir barðinu á þeim. Lokatölur 109-122 þar sem byrjunarlið Portland var allt með 16 stig eða meira í leiknum og atkvæðamestur þar Damian Lillard með 23 stig og 2 stoðsendingar. Hjá Clippers var Lou Williams með 30 stig.
Russell Westbrook var vitaskuld með þrennu í 125-132 sigri Oklahoma gegn Toronto og um leið var 11 leikja sigurganga Toronto á enda. Þrír fengu reisupassann í leiknum en það voru þeir DeRozan, Serge Ibaka og þjálfari Raptors Dwane Casey eftir mótmæli sín við dómara leiksins. En aftur að þrennu Westbrook en hún taldi 37 stig á 37 mínútum, 13 fráköst og 14 stoðsendingar. DeMar DeRozan var stigahæstur í liði Raptors með 25 stig og 5 stoðsendingar.
Úrslit næturinnar:
Clippers 109-122 Portland
Minnesota 120-129 Houston
Pelicans 108-89 Boston
Toronto 125-132 Oklahoma
Myndbönd næturinnar



