{mosimage}08:34:06
Philadelphia, Denver og Atlanta unnu öll fyrstu leiki sína í úrslitakeppni NBA í nótt. Philadelphia lagði Orlando óvænt, 98-100 , þar sem Andre Iguodala skoraði sigurkörfuna 2 sek fyrir leikslok, Denver vann New Orleans með miklu öryggi, 113-84 , og Dwayne Wade og félagar í Miami voru allt að því niðurlægðir af Atlanta sem vann viðureign liðanna, 90-64 .
Philadelphia 76ers komu inn í úrslitakeppnina á slæmum nótum þar sem þeir höfðu tapað sex af síðustu sjö leikjum og þeir þurftu að hafa mikið fyrir hlutunum því Dwight Howard átti stórleik fyrir Orlando sem leiddu með 18 stigum þegar mest lét í þriðja leikhluta. Þá tóku Sixers við sér og gerðu leik úr þessu með góðri rispu í lokaleikhlutanum. Þeir jöfnuðu svo leikinn þegar um fjórar mínútur voru eftir. Orlando tóku frumkvæðið að nýju en gamli jálkurinn Donyel Marshall jafnaði svo metin á nýjan leik rétt fyrir leikslok og Iguodala kláraði leikinn eins og fyrr sagði.
Þó Orlando hafi verið ofar í töflunni var þessi sigur þó ekki alfarið óvæntur því tveir lykilmenn þeirra, Rashard Lewis og Hedo Turkoglu, eru nýstignir upp úr meiðslum. Þó voru hetjudáðir Howards, sem var með 31 stig og 16 fráköst, og nýliðans Courtney Lee, sem gerði 18 stig, nærri nóg.
Hjá Sixers var Iguodala með 20 stig, Lois Williams 18 og Andre Miller var með 15.
—-
Stigakóngur NBA, Dwayne Wade, sýndi í nótt að hann getur ekki gert allt sjálfur þegar Atlanta Hawks kjöldrógu lið hans Miami Heat. Wade skoraði aðeins 19 stig í leiknum, sem Heat misstu úr höndum sér í fyrri hálfleik.
Troðslumeistarinn fyrrverandi Josh Smith, var eins og kóngur í ríki sínu í leiknum þar sem hann sveif um loftið og átti hverja skrímslatroðsluna á fætur annarri (SJá myndbönd með tilþrifum næturinnar).
Heat gáfust upp fyrir kraftinum í Hawks sem sigldu lygnan sjó að sigri.
Aðeins einn annar Heat-maður var með lífsmarki en það var Michael Beasley sem var með 10 stig og jafnmörg fráköst.
Hjá Hawks var Smith með 23 stig og 10 fráköst, Joe Johnson tók því nokkuð rólega með 15 stig og Al Horford var með 14. Hawks halda því heimavallarréttinum sem er meira en hægt er að segja um mörg önnur lið í þessari fyrstu umferð úrslitakeppni NBA.
—-
Annað lið sem varði sinn heimavöll með kjafti og klóm var Denver Nuggets sem jörðuðu New Orleans Hornets í nótt.
Chauncey Billups, heimamaðurin sem kom til Denver frá Detroit snemma á tímabilinu, fór hamförum í þessum leik þar sem hann garði 36 stig, þar af 8 þriggja stig körfur.
Lengi vel leit út fyrir að þetta yrði alvöru viðureign, en afgerandi 21-0 kafli hjá Denver í þriðja og fjórða leikhluta gerði út um allar vonir Hornets sem voru á tímabili 34 stigum undir.
Allt gekk upp hjá Nuggets sem fengu helling út úr bekknum og spiluðu góða liðsvörn sem Hornets réðu ekkert við.
Í kvöld mætast Chicago og Boston annars vegar og Dallas og San Antonio hins vegar, en Chicago og Dallas unnu fyrstu viðureignirnar í þeim einvígjum.
ÞJ



