spot_img
HomeFréttirPétur: Við fylgdum ekki planinu

Pétur: Við fylgdum ekki planinu

 
Skotnýting Keflvíkinga hefur oft verið betri en í kvöld, 40% í teignum, 30% í þriggja stiga og 64% á vítalínunni. Pétur Rúrik Guðmundsson aðstoðarþjálfari Keflvíkinga kvittaði undir að nýtingin hefði farið illa með sína menn í kvöld þegar KR tók 1-0 forystu gegn Keflavík í undanúrslitaeinvígi liðanna í Iceland Express deild karla.
,,Verst var samt að við fylgdum ekki planinu, að nota okkar kerfi betur og fá okkar skot. Við létum KR ýta okkur út úr aðgerðunum og fengum því ekki þau skot á þeim tímapunkti og stað sem við vildum,“ sagði Pétur og vildi meina að Keflvíkingar hefðu verið að flýta sér of oft í leiknum.
 
,,Þetta var jafn leikur allan tímann en þegar það eru 3-4 mínútur eftir nær KR um 10 stiga forskoti en við gerðum alltaf atlögur en náðum ekki að gera þetta nægilega spennandi undir lokin,“ sagði Pétur sem á miðvikudagskvöld fær KR í heimsókn í Toyota-höllina þar sem Keflvíkingar hafa unnið 11 leiki í röð!
 
,,Við ætlum að gera okkar hluti betur í næsta leik og þá förum við sáttir inn í búningsklefa eftir leikinn, það er ég sannfærður um. Hugurinn þarf að vera í lagi og ef við erum ekki með hugann við efnið þá enda hlutirnir illa. Við erum með gríðarlega sterkan heimavöll en í mínum huga snýst þetta ekki um hvar þú spilar, þú átt bara alltaf að koma tilbúinn til þess að spila. Nú hjálpar það okkur að vera með næsta leik á heimavelli og þar æltum við ekkert að hætta að vinna.“
 
Fréttir
- Auglýsing -