23:49
{mosimage}
Skallagrímur bar sigurorð af ÍR-ingum í Borgarnesi í kvöld með 89 stigi gegn 86 í hörkuspennandi leik sem var jafn og skemmtilegur frá upphafi til enda. Pétur Már Sigurðsson setti niður þriggja stiga körfu þegar skammt var til leiksloka og tryggði heimamönnum sigurinn en Hafþór Ingi Gunnarsson var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins en þetta kemur fram á www.skallagrimur.org
Það var rífandi stemmning í Fjósinu í Borgarnesi í kvöld, Indriði Jósafatsson gaf tóninn fyrir leikinn þegar hann kynnti lið ÍR og naut aðstoðar Sigmundar Herbertssonar dómara við að bera fram illframberanlegt eftirnafn Sveinbjörns Claessen.
Hafþór Ingi hóf leikinn á því að stela knettinum fyrir heimamenn og skömmu síðar var Darrel Flake kominn á vítalínuna. Hafþór Ingi átti eftir að eiga frábæran leik. Pétur Már og Pálmi skoruðu svo báðir úr þriggja stiga skotum Flake bætti tveim stigum við, s.s. staðan 10-0 eftir einungis 4 mínútna leik. ÍR-ingar komu þó til baka með hjálp Nate Brown og Eiríks Önundarsonar. ÍR-ingar enduðu leikhlutann með stæl en þeir skorðuðu 6 stig á síðustu 20 sekúndunm, og fengu áhorfendur að sjá flautukörfu í boði Steinars Arasonar í þokkabót, 24-17 eftir 1. leikhluta.
Annar leikhluti byrjaði vel, bæði lið skiptust á að skora og var sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með einivígi þeirra Milojica Zekovic og Tahirou Sani, en þeir remdust báðir eins og rjúpann við staurinn við að koma knettinum ofan í en aldrei vildi hann það og á endanum hættu þeir þessum fíflagangi og létu aðra leikmenn um að skora. Heimamenn voru að frákasta illa í vörninni og ÍR-ingar voru að hirða boltann eftir slök skot. Sveinbjörn Claessen fór fremstur í flokki ÍR-inga í misnotkun á dauðafærum í 2.leikhluta, en hann átti eftir að bæta úr því og sýna hversu öflugur körfuboltamaður hann er. Sóknarleikur Skallagríms var heldur tilviljunarkenndur í seinni hálfleik, Hafþór Ingi brá á það ráð í lok leikhlutans að reyna þriggjastigaskot, það geigaði og í staðinn fyrir það að Skallagrímsmenn ættu síðasta skotið skoruðu ÍR-ingar aðra flautukörfu, fremur klaufalegt. Staðan í hálfleik var 36-35 heimamönnum í vil.
Þriðji leikhluti stóð algerlega undir væntingum, var jafn spennandi og skemmtilegur og fyrri hálfleikur hafði verið. Darrel Flake skoraði fyrstu 2 stig hálfleiksins en ÍR-ingar, með Hreggvið "Reggie" Magnússon í broddi fylkingar settu þá í gírinn og skorðu 7 stig í röð. Í stöðunni 40-44, einmitt þegar ÍR-ingar virtust ætla að ganga á lagið fór Hafþór Ingi Gunnarsson í gang, keyrði að körfunni, skoraði og fékk vítaskot að auki. Hafþór smitaði út frá sér og liðið fór að spila betur í vörn og sókn. Óðinn Guðmundsson setti niður mjög mikilvæga þriggjastiga körfu og staðan í lok 3. leikhluta var 61-61, allt í járnum.
Fjórði leikhluti var eyrnamerktur Hafþóri Inga Gunnarssyni frá upphafi til enda. Hann byrjaði á því að smella niður 3 góðum og kom heimamönnum yfir, 64-61. Hreggviður Magnússon svaraði með tveimur stigum, en það héldu Hafþóri engin bönd í kvöld, hann tók boltann, plataði Ólaf "B." Sigurðsson uppúr skónum og smellti niður tveimur stigum, ásamt því að fá víti að auki. Kæruleysi Allan Fall sá hinsvegar til þess að Nate Brown var ekki lengi að jafna metin að nýju, þessi ágæti leikmaður er sjálfum sér og liðinu hvað verstur þegar hann er ekki á tánum. Sveinbjörn Claessen átti frábæran lokafjórðung og bar ÍR-ingar á herðum sér. Darrel Flake kom skallagrím í 74-71 og skömmu seinna hafði Eríkur Önundarson jafnað leikinn í 78-78. Darrel Flake kom heimamönnum yfir að nýju með "afturkasti (putback)", og Allan Fall kom Skallagrím í 82-78 eftir hraðaupphlaup. Þá var einungis rúm mínúta eftir af leiknum og björninn virtist unninn. En, Skallagrímsmenn töpuðu knettinum og Nate Brown minnkaði muninn og skömmu síðar unnu ÍR-ingar aftur boltann og viti menn, dauðafríum Eiríki Önundarsyni brást ekki bogalistin og kom hann ÍR-ingum yfir 84-85 þegar einungis um 40 sek voru eftir.
En Borgnesingar búa blessunarlega við það að eiga góðar og reyndar skyttur í herbúðum sínu og er Pétur Már Sigurðsson ein þeirra, hann setti niður gríðarlega mikilvægt skot þegar aðeins um 20 sekúndur voru eftir og kom borgnesingum yfir 87-85. Nate Brown keyrði þá upp og æltaði að jafna leikinn skot hans geigaði og í kjölfarið var brotið á Darrel Flake, sem brást ekki bogalistin og kom heimamönnum í 89-85 á vítalínunni. Nate Brown setti svo niður eitt víti og Zekovic skoraði þegar lokflautan gall, 91-86 sigur heimamanna staðreynd.
Borgnesingar sýndu það í kvöld að þeir búa yfir feykilegri reynslu og satt best að segja fór aldrei um áhorfendur þó að Eiríkur Önundarson hafi velgt þeim undir ugg í lokin. Slík er reynslan í liði Skallagríms, leikirnir eru kláraðir.
Hafþór Ingi var maður þessa leiks, hann stígur alltaf upp þegar þess þarf og rífur liðið með sér í stemmningunni, Pétur Már setti niður nokkrar mikilvægar körfur og Darrel Flake var traustur að vanda. Zekovic er allur að ná sér eftir meiðslin, en Allan Fall má aðeins fara að spýta í lófanna. Sveinbjörn Claessen, Nate Brown og Hreggviður Magnússon voru bestu menn ÍR í kvöld.
Texti: GBÞ
Mynd: Svanur Steinarsson



