Pétur Þór Jakobsson reyndist hetja Ármenninga í kvöld þegar Þór Akureyri kom í heimsókn í Kennaraháskólann. Framlengja varð viðureign liðanna sem lauk með 86-84 sigri Ármanns.
Bæði lið mættu grimm til leiks og Ármenningar fengu bakslag í sínar aðgerðir er þeir reyndu að pressa fullan völl sem lyktaði með þónokkrum hraðaupplaupsstigum Þórsara. Gestirnir að norðan leiddu 19-22 að loknum fyrsta leikhluta. Þór fór svo með 35-40 forystu inn í leikhlé en hún hefði getað verið meiri þar sem norðanmenn voru ekki að finna taktinn á vítalínunni og luku leik í kvöld með 44% vítanýtingu.
Þórsarar náðu muninum upp í 37-50 snemma í síðari hálfleik en Ármenningar tóku þá myndarlegt áhlaup og komust í 58-56 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Ármann tók því 21-6 sprett!
Fjórði leikhluti var hraður og skemmtilegur áhorfs og Þór komst í 68-73 þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka. Þegar rúmlega ein og hálf mínúta var til leiksloka var jafnt, 74-74. Þorbergur Ólafsson kom Þórsurum í 75-78 á lokasekúndum leiksins og Ármenningar áttu aðeins einn kost í stöðunni, smella lítilli bæn upp í loftið og það gerði Pétur Þór Jakobsson er hann splæsti í myndarlegan regnbogaþrist og jafnaði með um 7 sekúndur eftir af klukkunni. Þórsarar náðu ekki að nýta tímann til að stela sigrinum og því varð að framlengja.
Fyrsta karfa framlengingarinnar kom þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka og Þórsurum virtist líða betur á þessum spennukafla. Vítaskotin héldu áfram að hrella Þórsara og Ármenningar náðu að jafna metin 84-84. Þórsarar voru með boltann þegar 20 sekúndur voru til leiksloka en misstu boltann og hraðaupphlaup Ármenninga endaði með Pétri Þór í sniðskoti þegar 4 sekúndur voru eftir. Þórsarar náðu ekki að nýta tímann til að jafna eða stela sigrinum og Ármenningar fögnuðu því sigri 86-84 þar sem hetja þeirra var óumdeild Pétur Þór Jakobsson.
Stigaskor:
Ármann: Helgi Hrafn Þorláksson 21, Pétur Þór Jakobsson 17, Snorri Páll Sigurðsson 12/5 fráköst, Illugi Auðunsson 10/6 fráköst, Sverrir Gunnarsson 8, Egill Vignisson 7, Árni Þór Jónsson 6, Eysteinn Freyr Júlíusson 5, Bjarki Þórðarson 0, Vic Ian Damasin 0, Hafþór Örn Þórisson 0, Eggert Sigurðsson 0.
Þór Ak.: Stefán Karel Torfason 36/12 fráköst, Sindri Davíðsson 18/4 fráköst, Þorbergur Ólafsson 15/8 fráköst, Guðmundur Ævar Oddsson 4, Björn B. Benediktsson 4, Sigmundur Óli Eiríksson 4, Benedikt Eggert Pálsson 2, Elías Kristjánsson 1, Helgi Hrafn Halldórsson 0, Baldur Már Stefánsson 0, Roman Arnarson 0.
Dómarar: Steinar Orri Sigurðsson, Hákon Hjartarson
Umfjöllun og myndir / Tomasz Kolodziejski – [email protected]