spot_img
HomeFréttirPétur: Stefni á höfuðborgarsvæðið eða nágrenni

Pétur: Stefni á höfuðborgarsvæðið eða nágrenni

Pétur Sigurðsson verður ekki með KFÍ á næstu leiktíð eins og þegar hefur komið fram hjá okkur. Karfan.is náði tali af Pétri sem stefnir hingað suður, á höfuðborgarsvæðið eða næsta nágrenni.
 
,,Eins og er þá er ég samningslaus og er að þreifa fyrir mér í þeim málum. Góð og lærdómsrík tvö ár búin fyrir vestan og tími til að færa sig áfram. Ég mun flytja frá Ísafirði með vorinu þegar ég er búinn að klára mína vinnu hér og stefni á höfuðborgarsvæðið eða nágrenni. Eina sem er í gangi hjá mér núna í körfuboltanum er undirbúningur fyrir landsliðsverkefni sem byrjar í miðjan maí og stendur fram á sumar,” sagði Pétur sem er aðstoðarþjálfari hjá A-landsliði Íslands.
 
Aðspurður um hvort hann væri jafnvel kominn með lið fyrir næstu leiktíð sagði Pétur: ,,Engar formlegar viðræður eru í gangi við önnur lið eins og er en það er verið að skoða þessi mál mjög vel,” sagði Pétur og kvað það vera forrréttindi að þjálfa í íslensku úrvalsdeildinni.
 
,,Stefnan er auðvitað sett á að þjálfa í efstu deild. Helst að geta komið sér í þá aðstöðu að eiga möguleika á titli. Það eru forréttindi að þjálfa í úrvalsdeildinni og mikil vinna felst í því.
Einnig mun ég skoða alla möguleika sem bjóðast. Körfubolti er ástríða hjá mér svo það er alltaf gaman að takast á við nýjar áskoranir.”
  
Fréttir
- Auglýsing -