Ísland var rétt í þessu að valta yfir San Marínó á Smáþjóðaleikunum. Karfan.is náði tali af Pétri Sigurðssyni öðrum tveggja þjálfara liðsins en Arnar Guðjónsson stýrir liðinu með Pétri ytra í fjarveru Peters Öqvist. Pétur taldi það nokkuð víst að San Marínó væri með lakasta liðið á mótinu.
„Ég er ekki búinn að sjá hin liðin en ég held að San Marínó séu með lakasta liðið. Við byrjuðum frekar illa í dag, vorum stífir en rúlluðum síðan yfir þá. Við náðum að rúlla vel á öllum leikmönnum og það skoruðu allir. Við hittum ekkert rosalega vel en vorum að fá opin skot, smá stress í byrjun en varnarleikurinn var fínn meirihluta leiksins og við vorum góðir á „breikinu“ en San Marínó voru aðallega slakir,“ sagði Pétur og á von á umtalsvert meiri mótspyrnu frá heimamönnum í Lúxemborg en liðin mætast á morgun.
„Það eru smáatriði í varnarleiknum sem við þurfum að fara yfir og í raun sitt lítið af hverju, við tökum þetta í gegn á æfingunni í fyrramálið. Þetta verður hörkuleikur gegn heimamönnum, ég held að þeir séu með þrjá eða fjóra leikmenn frá Bandaríkjunum í liðinu sínu og það er frábær áskorun fyrir okkur. Leikurinn á morgun verður töluvert erfiðari fyrir okkur heldur en þessi í dag. En þetta er bara gaman og við erum fullir sjálfstrausts.“
Mynd/ KKÍ – Pétur og Arnar skömmu fyrir leikinn í dag gegn San Marínó



