spot_img
HomeFréttirPétur R. Guðmundsson: Stelpur komnar lengra körfuboltalega séð

Pétur R. Guðmundsson: Stelpur komnar lengra körfuboltalega séð

15:30

{mosimage}

Í fyrrakvöld sömdu Grindvíkingar við Pétur Guðmundsson um að þjálfa mfl.kv. næsta tímabil. Pétur er mikill baráttujaxl og spilaði til fjölda ára með mfl.kk í Grindavík og var þar þekktur fyrir mikla baráttu og hversu hvetjandi áhrif hann hafði á leikmenn í kringum sig. Það verður því spennandi að fylgjast með Grindavíkurstelpunum á næsta tímabili og hvort sú barátta og leikgleði sem einkenndi  Pétur muni skila sér til stelpnanna. Karfan.is hafði samband við Pétur og spurði hann nokkurra spurninga.

Nú ert þú að þjálfa mfl.kvk í Grindavík í annað sinn, hver er aðalmunurinn á liðinu núna og þegar þú þjálfaðir árið 2000-2001?
Ef að ég horfi á þetta frá mínu sjónarhorni, þá held ég að munurinn sé aðallega fólgin í því að ég er með meiri reynslu núna en þá. Ég hef haft mjög færa og góða þjálfara í gegnum árin og mun koma til með að nýta mér það sem ég hef lært af þeim og síðan hef ég auðvitað sótt námskeið líka sem munu nýtast mér í þjálfuninni.

Gagnvart liðinu sjálfu, þá er uppsetning á liðinu ekkert ósvipuð og þegar ég þjálfaði þá og að því leytinu er þetta kannski ekkert öðruvísi. En ég tel að þessar stelpur sem eru í liðinu í dag séu komnar lengra körfuboltalega séð og stafar það af því að þjálfun í dag er orðin betri og einnig er aðstaða fyrir stúlkur að stunda íþróttina betri núna en áður. Það er lagt meira í kvennaflokkana sem er mjög góð þróun.

Nú hefur þú sagt að þú viljir aðeins hafa einn útlending í liðinu á næsta ári og viljir fá Tiffany Roberson aftur, á hverju er sú ákvörðun byggð?
Sú ákvörðun er margþætt en ef ég byrja á því að nefna ástæðu fyrir einum útlendingi, þá tel ég að liðið sé það sterkt og þannig uppbyggt að við þurfum eingöngu einn útlending til að ná okkar markmiðum. Ég veit að það er góður vilji hjá stelpunum að hafa einungis einn útlending og þær eru tilbúnar að leggja það á sig sem þarf til að ná þeim árangri sem við ætlum okkur.

Við erum með gríðalega ungt og efnilegt lið og ég tel að þessar stelpur þurfi að fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Við erum einnig með mikla reynslubolta í liðinu sem munu koma til með að vera stór þáttur í þeim árangri sem næst á næsta tímabili.

Varðandi að taka Tiffany aftur, þá sá ég hana spila á síðasta tímabili og hún er sá leikmaður sem passar inn í þann bolta sem ég vil spila. Hún er góður varnarmaður og getur í raun dekkað allar stöður á  vellinum. Hún er sterkur frákastari og góð inn í teig. Hún gefur mikið af sér í leikjum og á æfingum og þegar þú ert með ungt lið eins og við erum með, þá er það mikilvægt að fá ekki fýlupúka í liðið sem stuðar alla.

Verða allir leikmennirnir áfram á næsta tímabili?
Ég á von á því, það er mikilvægt að halda í sama hópinn, því þá er í raun mjög litlar breytingar á liðinu og hægt að byggja á því sem var gert í fyrra í staðinn fyrir að vera byrja upp á nýtt. Það verða auðvita eitthvað um breyttar áherslur með nýjum þjálfara en ég legg mikið upp úr því að halda öllum stelpunum áfram.

Er gert eitthvað ráð fyrir því að styrkja liðið frekar með íslenskum leikmönnum?
Ég hef í raun ekki hugsað mikið út í það. Ég vil fyrst ná að halda í alla leikmenn sem voru í fyrra og síðan sný ég mér að þessu. Ég auðvita fagna því ef að einhverjir vilja koma til okkar og spila með Grindavík en ég tel ekki tímabært að skoða þetta á þessum tímapunkti. Ég er í raun búin að vera í þessu starfi í ca. sólahring og því hefur ekki gefist mikill tími að skoða í kringum mig. Ég vona að þess þurfi í raun ekki.

Hvaða væntingar gerir þú til liðsins/ákveðinna leikmanna fyrir næsta tímabil?
Ég persónulega hef ákveðnar væntingar til liðsins og leikmannanna en ég á eftir að setjast niður með hverjum leikmanni fyrir sig og heyra þeirra væntingar sem þær hafa til liðsins og einnig fyrir sig sjálfa. Mér finnst mikilvægt að væntingar og markmið þjálfara séu í takt við það sem leikmenn sækjast eftir.

Nú hefur þú lengi verið í kringum kvennaboltann, hvernig sérðu fyrir þér efstu deild kvenna í framtíðinni?
Ég sé fyrir mér fjölgun liða í efstu deild og meiri jafnræði með liðunum. Það mun taka nokkur ár en mér finnst að kvennakörfuboltinn sé búin að taka miklum framförum á þessum árum sem ég hef verið að fylgjast með þessu og við erum í réttri átt gagnvart því að búa til góða leikmenn. Við þurfum að mínu mati að útbúa áætlun sem er raunhæf um fjölgun liða í efstu deild og í framhaldi að finna skilvirka leið til að fylgja þeirri áætlun eftir.

Bryndís Gunnlaugsdóttir

Mynd: www.umfg.is

 

Fréttir
- Auglýsing -