18:42
{mosimage}
(Pétur Guðmundsson)
,,Þetta var langt frá því sem við ætluðum okkur því við ætluðum okkur að sigra þetta einvígi. Við vitum alveg hvað við getum en því miður gerðum við ekki það sem við ætluðum okkur. Eini munurinn á liðunum í dag var sá að KR komu tilbúnar en það gerðum við ekki,“ sagði Pétur Rúrik Guðmundsson þjálfari Grindavíkur í samtali við Karfan.is í leikslok í Vesturbænum þar sem Grindavíkurkonur lágu 77-57 í oddaleik gegn KR um sæti í undanúrslitm Iceland Express deildar kvenna.
,,Það vantaði þennan extra neista í dag sem var að gefa okkur vel í hinum tveimur leikjunum gegn KR en þær eru með ótrúlega góða varnarmenn og eiga hrós skilið fyrir það að vera svona duglegar. Við vorum bara í vandræðum gegn KR í dag og þær sem varnarmenn voru að stjórna línunni sem dæmt er eftir og við vorum ekki tilbúnar í þann slag,“ sagði Pétur sem talar ekki lengur um að vera með ungt lið.
,,Ég vil bara hætta að kalla stelpurnar mínar ungar, þær eru bara góðar, það er voðalega einfalt. Þær kunna körfubolta og vita út á hvað þetta gengur. Tímabilið er búið að vera góð reynsla fyrir þær en maður þarf að kunna að tapa þó manni þurfi ekki að líka vel við það en eftir ósigur þarf maður að geta lært af reynslunni og komið sterkur til baka,“ sagði Pétur en hvernig verður þetta hjá Grindavík á næstu leiktíð?
,,Ég vona að allar stelpurnar verði áfram hjá okkur og ég vona að það verði ekki erlendir leikmenn og bara íslenskt já takk og þannig fá þessir leikmenn að blómstra,“ sagði Pétur sem á eitt ár eftir af samningi sínum við Grindvíkinga.



