Dómaranefnd KKÍ hefur ákveðið að koma á framfæri nokkrum athugasemdum vegna greinar sem birtist í gær hér á Karfan.is um óánægju Hólmara er hefur að gera með úrslitaleik Snæfells og Keflavíkur í unglingaflokki kvenna. Karfan.is ræddi við Pétur Hrafn Sigurðsson formann dómaranefndar KKÍ og fyrrum framkvæmdastjóra sambandsins en hann segir það sem komi fram í greininni um mistök dómarans séu rangfærslur.
,,Í greinni eru ummæli um að dómari þessa leiks hafi gert mistök og að furðulegt sé að dómarinn geri þau mistök að dæma körfuna gilda eftir að hafa horft á þetta á myndbandi. Dómari má eingöngu horfa á myndband til að dæma hvort karfa sé gild eða ekki, sé tveggja stiga eða þriggja stiga karfan. Þá má hann meta hvort karfan sé gild eða ekki áður en hljóðmerkið heyrist. Bara þessi tvö atriði má hann meta, hann horfir á myndbandið og það sést á myndbandinu að leikmaðurinn hefur sleppt boltanum þegar hljóðmerkið heyrist. Dómarinn má ekki meta eða mæla hvort leikklukkan hafi farið af stað á réttum tíma eða ekki," sagði Pétur Hrafn og í annan stað hefur dómaranefndin athugasemd um svokallaðan viðbragðstíma.
,,Í öllum svona atvikum í körfuboltaleik þá er ákveðinn viðbragðstími, þ.e.a.s. leikmaður tekur knöttinn inn, hann er snertur og dómari gefur merki um að setja leikinn af stað og það gerir tímavörðurinn, þetta gerist ótal sinnum í leiknum. Þetta er viðbragðstíminn og gera verður ráð fyrir honum og því segir í reglunum að hægt sé að skora körfu þegar 0,3 sek. eru til leiksloka, minna en það þá verði að blaka boltanum eða troða. Dómarinn má ekki tímamæla t.d. með skeiðklukku og aðaldómarinn sér um að meta myndbandið og taka ákvörðun út frá því," sagði Pétur og bætir við að það sem komi fram í téðri grein frá því í gær um mistök dómarans séu rangfærslur.
,,Dómarinn gerði allt rétt, hvort leikklukkan hafi verið sett of seint í gang verður dómarinn að meta og í þessu tilfelli mátu þeir að svo væri ekki, dómari má ekki leiðrétta eftir myndbandi, ef þarna hefði t.d. verið skref þá má ekki meta það í myndbandinu aðeins í ofangreindum tilfellum."