Pétur Ingvarsson er kominn hálfa leið með lið sitt Hauka upp í Iceland Express deildina að ári eftir nokkuð öruggan sigur á Valsmönnum á Ásvöllum í kvöld. Haukar leiddu leikinn nánast frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu og það nokkuð örugglega. Bjóst Pétur við svona miklum mun á liðunum á þessum tímapunkti?
,,Nei í sjálfu sér ekki. Ég bjóst við að þetta yrði hörku leikur og þetta var samt hörku leikur þó þetta hafi verið 20 stiga forskot. Við vorum bara tilbúnir í þetta. Við vorum búnir að undirbúa okkur vel fyrir svæðisvörn, við vissum að þeir myndi spila svæðisvörn, skotin voru að detta ofaní og við gátum fengið auðveld skot á körfuna. Það gekk margt upp hjá okkur”.
Haukar spila á stórum leikmannahópi og í kvöld skiptu 9 leikmenn stigunum á milli sín. Pétur vildi þó ekki meina að þeir hefðu forskot á Valsmenn að því leiti.
,,Þeir eru líka að rúlla á mörgum mönnum. Við vorum betri í þessum leik og svo sjáum við bara til hvernig næsti leikur fer. Ég held að Haukar hafi ekki unnið Val að Hlíðarenda síðan 1998 eða eitthvað álíka, það eru 12 ár síðan við unnum þá síðast held ég”.
Liðin unnu sitthvorn leikinn gegn hvor öðru í deildinni í vetur og bæði liðin fóru með sigur af hólmi á heimavelli. Haukar unnu nokkuð örugglega á Ásvöllum en máttu þola 4 stiga tap að Hlíðarenda.
,,Þá áttum við ekki möguleika einhvern vegin. Það hefur mikið breyst. En eins og ég segi þá hafa Haukar verið full bróðurlegir við bræðrafélag sitt að Hlíðarenda seinustu 12 árin og við ætlum að finna einhverja leið til þess að breyta því á þriðjudginn."
Viðtal: Gísli Ólafsson
Ljósmynd/Tomasz Kolodziejski



