spot_img
HomeFréttirPétur eftir lokaleikinn gegn Álftanesi "Þegar við náðum tempóinu þá vissi maður...

Pétur eftir lokaleikinn gegn Álftanesi “Þegar við náðum tempóinu þá vissi maður að þeir áttu ekki breik”

Keflvíkingar lögðu Álftanes í Forsetahöllinni í fjórða leik átta liða úrslita einvígis liðanna, 85-114. Með sigrinum tryggði Keflavík sér sigur í einvíginu 3-1, en þar munu þeir mæta Grindavík.

Hérna er meira um leikinn

Pétur Ingvars var tekinn tali eftir stórsigur í Forsetahöllinni:

Til hamingju með geggjaðan sigur!

Takk fyrir það!

Þið skorið 56 stig síðast í þessu húsi…núna 58 stig í FYRRI hálfleik í kvöld…eru þetta einhverjir galdrar eða?

Nei…þetta er kannski meira það að við erum búnir að spila einn svona afskaplega lélegan leik (leik 2) í vetur og menn drógu kannski full miklar ályktanir af þeim leik en gleyma svo heildar pakkanum. Það sem þeir gerðu kannski líka vel í þeim leik var að þeir spiluðu ansi fast á meðan að við ætluðum að vera svolítið krúttlegir og spila okkar sóknarleik og það kom kannski svolítið flatt upp á menn í þeim leik.

Akkúrat. Mín tilfinning var sú þið voruð bara miklu grimmari í þessum leik kvöld…

Já, sammála þér um það…

…og það skilaði sér bara í betri heildarframmistöðu, menn voru að ná stoppum, mönnum líður betur og þá er auðveldara að henda niður nokkrum þristum og svo framvegis…?

Það er málið…svo er það líka það að okkar leikur er náttúrulega sá að spila hratt og rótera svolítið mönnum, hafa hátt tempó og þegar við náðum tempóinu þá vissi maður að þeir áttu ekki breik, þetta er ekki þeirra leikur. Þeir vilja skora tveggja stiga körfur á meðan að við viljum skora þriggja stiga körfur!

Jájá…og þér hefur kannski bara farið að líða vel strax snemma í öðrum leikhluta eða hvað?

Nei…! Mér leið skal ég segja þér bara mjög vel held ég strax í þriðju sókninni þegar dómarinn dæmdi villu sem hefur ekki verið að dæma alla þessa seríu, ég vissi þá að svona yrði línan, eðlilegur FIBA-körfubolti sem verður spilaður og þá eiga þeir ekki breik í okkur.

Jájá…ég verð að taka undir það að maður hefur séð klárar villur sem ekki hafa verið flautaðar…

Já, menn fá svo sem ekki allt…en ég samdi ekki FIBA-reglurnar og ekki dómararnir heldur en þeir þurfa samt að fara eftir þeim. Það er alveg sama þó einhverjir áhorfendur vilji hafa hörku í leiknum þá þarf ekki að breyta þeim. Við erum hérna með atvinnumenn og ef þetta á að vera bara einhver ofbeldisleikur þá fara þeir bara í einhverja slagsmálaleiki…

Já…geta farið í hokký eða UFC eða eitthvað…

Já eitthvað slíkt. Ég samdi ekki reglurnar og ekki dómarnir heldur en við erum að reyna að spila eftir reglunum og þeir að dæma eftir þeim og ef það er gert þá fer leikurinn svona.

Já og þá eruð þið kannski með besta liðið á landinu…?

Ja..ef menn tækju upp á því í úrslitakeppninni að hækka körfurnar…er það eðlilegt eða?

Neinei..það væri rosa skrýtið!

Það væri mjög skrýtið! Þannig að ég skil ekki af hverju menn eru eitthvað að fara að breyta einhverjum reglum í leiknum þegar að úrslitakeppnin byrjar. Það er bara galið.

Já…þetta er áhugaverð umræða…

Þetta er ekkert áhugaverð umræða! Þetta er bara mjög einföld umræða. Dómararnir þurfa bara að gjöra svo vel að fara eftir því sem reglubókin segir.

Já…jájá…en nú skulum við tala um eitthvað annað!

Jájá!

Það er Grindavík! Er hægt að vinna Grindavík eða? Eigið þið einhvern séns í þá??

Ja, við unnum þá árið 2023 en við erum ekki búnir að vinna þá 2024! Þeir virka óárennilegir og þeir hafa verið að spila gríðarlega vel eftir áramót. Þeir eru búnir að tapa 2 leikjum eftir áramót, á móti Álftanesi og Stjörnunni…þannig að þeir eru kannski eitthvað hræddir við liðin úr Garðabæ, við ættum kannski að fá að færa leikinn hingað! Þá ættum við einhvern séns! En maður er kannski ekki alveg byrjaður að hugsa út í þetta ennþá, en sú vinna byrjar bara á morgun…eða jafnvel bara núna!

Einmitt! Gangi ykkur bara vel í þeirri baráttu…það verður svakaleg rimma!

Ég á ekki von á öðru!

Fréttir
- Auglýsing -