spot_img
HomeFréttirPétur eftir leik "Þetta er eitt besta varnarliðið í deildinni og þeir...

Pétur eftir leik “Þetta er eitt besta varnarliðið í deildinni og þeir verða að fá smá credit fyrir það”

Álftnesingar lögðu Keflavík í Forsetahöllinni í kvöld í öðrum leik átta liða úrslita einvígis liðanna í Subway deild karla, 77-56. Staðan í einvíginu er því jöfn 1-1, en vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram í undanúrslitin.

Hérna er meira um leikinn

Pétur veitti Körfunni góðfúslega viðtal eftir leik þrátt fyrir stórt tap.

Pétur…ég elska einföldu frasana þína…körfuboltaleikur stendur yfir í 40 mínútur og mér var hugsað til þess því þið byrjið illa en ég bjóst alveg við því að þið mynduð koma til baka…en þú segir líka stundum að körfubolti snúist um það að hitta ofan í körfuna…og það bara kom ekkert í kvöld!

Þetta er eitt besta varnarliðið í deildinni og þeir verða að fá smá credit fyrir það og við lentum bara í bölvuðu basli með þá. Þeir gáfu okkur lítið opið og kannski þess vegna endaði þetta svona.

Já, maður hefur stundum séð þetta gerast, lið byrjar leikinn á því að hitta illa, 0-7 eða hvað það var til að byrja með í þristum hjá ykkur í kvöld, og það er eins og það smitist yfir á allt liðið og það hittir enginn neitt! Þetta er kannski gott dæmi um það?

Jújú það er alveg týpískt, við hittum illa og við missum svolítið trúna og sjálfstraustið í þessu, við missum líka Danero út eftir eina mínútu sem kemur oft með þriggja stiga skot af bekknum, þannig að það breyttist náttúrulega svolítið hjá okkur dýnamíkin.

Jájá, Danero Thomas sennilega einhver samviskulausasti skotmaður Íslandssögunnar!

Jájá, hann tekur opin skot og hann hjálpar okkur varnarlega og við skíttöpuðum frákastabaráttunni meðal annars af því að hann var ekki með sinn líkama þarna í 20 mínútur heldur bara 1 mínútu.

Akkúrat. Ertu eitthvað hræddum um að þessi leikur sitji eitthvað í mönnum?

Að sjálfsögðu er ég hræddur um það. Þetta er hörku varnarlið og þeir eru kannski komnir á bragðið og þetta verður ekkert auðvelt.

Þetta er svolítið statement frá þeim…stór sigur?

Alveg 100%. Við þurfum bara að finna lausnir.

Jájá…þú segir þínum mönnum að það á að hitta ofan í körfuna og leikurinn er 40 mínútur…og svo það að serían er bara rétt að byrja…

Jájá þetta gefur þeim auðvitað ákveðna trú og okkur ákveðnar efasemdir svo þetta er ekki kjörið fyrir okkur en þetta er úrslitakeppni og það getur allt gerst í þessu.

Ég veit að þú getur ekki tekið heilshugar undir það með mér en svona fyrir körfuboltaaðdáendur almennt og Álftnesinga þá eru þetta góð úrslit þannig séð, það eru fleiri leikir!

Ég get alveg tekið undir það! Hvoru megin sem maður horfir á þetta þá vilja menn náttúrulega hafa spennandi seríu og það mæta klárlega fleiri á leik 5 en leik 3 ef það fer 3-0…

…já og það mætir náttúrulega enginn á leik 5 ef serían fer 3-0…!

Nei bara alveg mjög fáir! En kannski Valsararnir…þeir myndu mæta…viku of seint!

Sagði Pétur, og undirritaður kann honum bestu þakkir fyrir gott viðtal þrátt fyrir erfitt tap í kvöld.

Fréttir
- Auglýsing -