spot_img
HomeFréttirPetrúnella: Eigum harma að hefna gegn Keflavík

Petrúnella: Eigum harma að hefna gegn Keflavík

11:00

{mosimage}

 

(Petrúnella Skúladóttir) 

 

Framundan er stórslagur Keflavíkur og Grindavíkur í Iceland Express deild kvenna en leikur liðanna er á miðvikudag í næstu viku. Petrúnella Skúladóttir var brött eftir sigurleikinn gegn Val í gærkvöldi og kvaðst spennt fyrir leiknum gegn Keflavík. Nokkur breyting hefur orðið á Grindavíkurliðinu frá síðustu leiktíð og nú er svo búið að Petrúnella leysir stöðu kraftframherja og segir hún það hlutverk krefjandi en það geti líka verið svolítið pirrandi.

 

,,Okkur hlakkar til að mæta Keflavík því þetta fór illa fyrir okkur síðast þegar liðin mættust og við eigum harma að hefna. Við erum með mjög gott lið núna og þetta verður bara hörkuspennandi leikur á miðvikudag,” sagði Petrúnella í samtali við Víkurfréttir.

 

Landsliðsbakvörðurinn Hildur Sigurðardóttir snéri aftur í heimahagana til KR í sumar og Igor Beljanski tók við Grindavíkurliðnu af Unndóri Sigurðssyni. Petrúnella segir aukna ábyrgð vera komna á hennar hendur en hún lofar erlendu leikmennina í liðinu og segir liðið hafa breyst til hins betra.

 

,,Hildur er farin en Skiba og Roberson komu inn í liðið sem ég tel að hafi breyst til hins betra. Skiba er mjög dugleg við að aðstoða okkur og þá er hún líka sterk í sókninni og Tiffany grimm í fráköstunum. Eins og við sáum í leiknum gegn Val þá er bara jákvætt framundan hjá okkur,” sagði Petrúnella.

 

,,Igor leggur mjög mikla áherslu á vörnina og hvetur okkur til að vera duglegar við að stíga út og að þá komi sóknin af sjálfri sér, sem er alveg rétt hjá honum. Það verður vörnin sem mun skila okkur sigri gegn Keflavík í næsta leik,” sagði Petrúnella sem er komin í stöðu kraftframherja hjá Grindavík. ,,Ég hef aldrei á mínum körfuboltaferli leikið þessa stöðu en ég kann ágætlega við hana. Það getur þó verið pirrandi stundum að leika í þessari stöðu og stundum langar mig að fara í mína gömlu stöðu en maður verður bara að leysa þetta. Marblettirnir og harkan verður bara meiri fyrir vikið,” sagði Petrúnella sem verður í eldlínunni með Grindavík gegn Keflavík á miðvikudag í næstu viku.

 

www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -