spot_img
HomeFréttirPerkins afskrifaður fyrir oddaleikinn

Perkins afskrifaður fyrir oddaleikinn

Miðherjin Kendrick Perkins verður fjarri góðu gamni þegar félagar hans í Boston Celtics mæta meisturum LA Lakers í oddaleik úrslita NBA á fimmtudagskvöld. Perkins tognaði á hné í fyrsta fjórðungi sjötta leiksins í nótt og hefur verið afskrifaður fyrir lokaleik tímabilsins.
Perkins er einn af bestu varnarmiðherjum deildarinnar og algjör lykilmaður í liði Boston og verður sannarlega skarð fyrir skildi í fjarveru hans.
 
Lakers hafa að vísu glímt við meiðslavandræði þar sem Andrew Bynum hefur verið varla hálfur maður frá því að hann meiddist fyrir nokkrum vikum, en hann hefur þó getað skilað um 20 mínútum í leik án þess þó að vera svipur hjá sjón miðað við það sem hann er fær um.
 
Boston misstu rimmuna úr höndum sér í gær með spilamennsku sem væri skjall að kalla meðalmennsku, og hefðu svo sannarlega getað nýtt sér krafta Perkins til að eiga við Bynum og Pau Gasol, sem geta nú í samvinnu við Lamar Odom, gert Kevin Garnett og Glen Davis erfitt um vik.
 
Hvernig sem fer er ljóst að það stefnir í sögulega viðureign. Eftir rimmu sem hefur verið álíka spennandi og meðal-leikur á HM í fótbolta er allt komið á suðupunkt og tvö nafntoguðustu lið í sögu deildarinnar munu enn einu sinni gera út um málin sín á milli í hreinum úrslitaleik NBA
Fréttir
- Auglýsing -