Landslið Króatíu hefur fengið nýjan mann á þjálfarastól en sá heitir Velemir Perasovic og var ráðinn til starfans fram að og með EuroBasket 2015. Perasovic tekur við starfinu af Jasmin Repesa.
Perasovic er Króati og ferilskráin er ekki af verri endanum en hann hefur stýrt Valencia síðustu þrjú ár í ACB deildinni á Spáni og vann Eurocup með félaginu á síðasta tímabili. Valencia setti einnig félagsmet á síðasta tímabili undir stjórn Perasovic með 30 sigra og 4 tapleiki í deildarkeppninni.
Velemir Perasovic hætti sem leikmaður árið 2003 og hófst þá þjálfaraferillinn þar sem hann vann fyrst hjá Sevilla og eftir það tók hann við Laboral Kutxa sem hafði sigur í Konungsbikarnum á Spáni árið 2006. Perasovic hefur einnig haft viðkomu hjá Estudiantes og Cibona Zagreb.
Perasovic verður á heimavelli á EuroBasket í sumar þegar Króatar verða gestgjafar C-riðils en þar leika vitaskuld heimamenn sem og Makedónía, Slóvenía, Grikkland, Georgía og Holland.




