spot_img
HomeFréttirPeningarnir verða ekki til í Breiðaholti eftir þörfum leikmannahópsins

Peningarnir verða ekki til í Breiðaholti eftir þörfum leikmannahópsins

11:06
{mosimage}

(Jón Arnar Ingvarsson)

Eftir fimm deildarsigra í röð hjá ÍR mættu Breiðhyltingar Grindavík og KR í deildinni og fengu þar nokkra magalendingu. Upphaf tímabilsins hjá ÍR í Iceland Express deildinni var brösótt, liðið tapaði fimm fyrstu leikjunum sínum en vann næstu fimm deildarleiki í röð þegar Hreggviður Magnússon snéri aftur úr meiðslum. Síðustu þrír leikir hjá ÍR hafa verið af stærri gerðinni en þeir mættu fyrst Grindavík í deildinni og lágu 92-78. Þar næst mættu þeir KR í deildinni og töpuðu 80-98 og í þriðja stórleiknum steinlá ÍR í Röstinni gegn Grindavík í Subwaybikarnum 105-78.

Karfan.is ræddi stuttlega við Jón Arnar Ingvarsson þjálfara ÍR eftir þessa stórleikjatörn þar sem Sveinbjörn Claessen nældi sér í ökklameiðsli og miðherjinn Þorsteinn Húnfjörð hefur ákveðið að yfirgefa klakann!

,,Sveinbjörn meiddist í upphitun gegn KR og við prufuðum hann í nokkrar mínútur þar en það gekk ekki. Hann er þannig karakter að hann vildi leggja sitt af mörkum og vera með í bikarleiknum gegn Grindavík þar sem hann var nánast á öðrum fæti, Sveinbjörn á töluvert í land með meiðsli sín og óvíst hvort hann verði með í næstu tveimur leikjum,“ sagði Jón Arnar en ÍR leikur næst gegn Stjörnunni í Garðabæ á fimmtudag. Þar munu þeir Fannar Helgason og Ólafur J. Sigurðsson mæta fyrrum liðsfélögum sínum í ÍR en þeir eru á mála hjá Stjörnunni.

Aðspurður um brotthvarf Þorsteins Húnfjörð og hvort ÍR myndi fyrir vikið bæta við sig erlendum leikmanni svaraði Jón: ,,Húni er farinn til London og verður ekki meira með í vetur. Ólíkt stöðu margra annarra liða í deildinni þá verða peningarnir ekki til í Breiðholti eftir þörfum leikmannahópsins. Við munum byggja liðið á þeim hóp sem við erum með! Menn hafa staðið mjög vel saman í þeim breytingum sem við höfum þurft að takast á við í vetur og ég er handviss að svo verður áfram,“ sagði Jón Arnar en um þessar mundir er ÍR í 8. sæti deildarinnar með 10 stig og er því síðasta liðið inn í úrslitakeppnina að óbreyttri stöðu í deildinni.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -