spot_img
HomeFréttirPavel: Vongóður um að klára tímabilið

Pavel: Vongóður um að klára tímabilið

Pavel Ermolinski stefnir að því að ná að klára leiktíðina með meisturum Sundsvall Dragons í Svíþjóð en landsliðsmaðurinn er með rifu í liðþófa á vinstra hné og hefur verið fjarri parketinu um hríð. Karfan.is ræddi við Pavel um meiðslin, stöðuna í sænsku úrvalsdeildinni og samvistinni með hinum íslensku landsliðsmönnunum í Sundsvall.
,,Tímabilið stendur tæpt hjá mér, ég fór í speglun og hef verið með spelku frá Össur og þurfti að vera með hana í fjórar vikur, hún kemur af í næstu viku og þá sjáum við hvernig hnéð bregst við álaginu," sagði Pavel sem er með rifu í liðþófa vinstra hnés en þegar kom að því að huga að meiðslunum var valið að fara ,,lengri" leiðina ef svo má að orði komast.
 
,,Það var hægt að skrapa skaddaða hlutann frá eða sauma liðþófann saman og á endanum var hann saumaður en það tekur lengri tíma þar sem saumarnir þurfa að gróa og þess háttar. Ég ætla ekki að stytta mér neinar leiðir enda var þetta bara spurning um eina til tvær vikur í viðbót," sagði Pavel sem hundleiðist meiðslin eins og gefur að skilja.
 
,,Ég nenni þessu ekki, ég er samt heppinn að geta hreyft mig smá núna, ég má beygja hnéð að 60 gráðum, spelkan er þannig gerð," sagði Pavel sem er í 4. sæti með Sundsvall Dragons um þessar mundir í sænsku úrvalsdeildinni.
 
,,Þetta er ansi jöfn deild, það eru allir að vinna alla og svona á þetta að vera. Við höfum gengið í gegnum margt þetta tímabilið, sérstaklega hvað varðar meiðsli, einnig höfum við skipt út leikmönnum en við eigum bara að vera sáttir við stöðu okkar með tilliti til alls," sagði Pavel en Sundsvall leikur næst þann 17. febrúar þegar liðið mætir Brynjari Þór Björnssyni og félögum í Jamtland. Er það ekki bókaður sigur?
 
,,Ég myndi nú ekki setja pening á það á Lengjunni, þetta er fáránlega jöfn deild, þetta er ekki eins og á síðasta tímabili þegar ég spilaði heima en þá þurfti margt að gerast til þess að maður tapaði gegn næstneðsta liði deildarinnar. Tap gegn Jamtland yrði ekki ,,upset" í deildinni eins og það er kallað."
 
Hver eru líklegustu liðin til afreka um þessar mundir í Svíþjóð?
 
,,Ásamt Sundsvall eru það sömu liðin og hafa alltaf verið held ég, Norrköping og sennilega LF Basket. Þetta eru liðin sem mér finnst hafa svona meira en önnur, þetta eru lið sem geta enn bætt sig að mínu mati og gefið aðeins meira í. Mörg lið eru að spila vel núna og eru jafnvel ofar en þau ættu að vera, sum gætu verið að toppa núna en eiga mögulega ekki jafn mikið inni og hin liðin."
 
 
Hvernig gengur annars sambúðin með hinum landsliðsmönnunum, þeim Hlyn og Jakobi?
 
,,Þeir eru góðr, annars bölvaðir fjölskyldumenn, það dregur mann svolítið niður þar sem ég er enn ungur og sprækur en þeir meira í fjölskyldurómantík alla daga en það er samt gaman af þessu hjá þeim. Þá er einnig gaman að eyða tíma með þeim og við erum mikið saman, ætli við séum ekki eins og kanarnir heima, sitjum úti í horni og tölum bara okkar á milli. Heima þá hraunaði maður kannski yfir kanana fyrir þetta," sagði Pavel og hló þegar við inntum hann af því hvort hann hafi farið til Svíþjóðar til að gerast hræsnari.
 
Við gerðumst þó öllu alvarlegri og reyndum að toga upp úr Pavel hvort hann yrði ekki örugglega meira með þetta tímabilið.
 
,,Ég gæti sést eitthvað, ég hef trú á því. Eins og þetta var lagt upp með meiðslin ætti ég að ná þessu og ég vona að ég geti stytt þennan tíma eitthvað, ég er vongóður. Það þýðir ekkert að vera neikvæður yfir þessu," sagði Pavel en það er vísast ekki auðvelt að vera afreksíþróttamaður og glíma við löng meiðsli.
 
,,Þetta er ekkert hobbý hjá manni heldur vinnan mín, til þess er ég hérna og þegar það er tekið frá á maður mjög lítið eftir. Þetta verður leiðinlegt á endanum þegar maður horfir á hina strákana spila. Svo stundum þegar maður spilar horfir maður á strákana á bekknum og vildi óska að maður væri þar," klykkti Pavel út kíminn enda lúmskur húmoristi.
 
Fréttir
- Auglýsing -