spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaPavel til liðs við Val

Pavel til liðs við Val

Valsmenn hafa hlotið gríðarlegan liðsstyrk í dag þar sem Pavel Ermolinski skrifaði undir samning við liðið. Samningar voru undirritaðir nú í hádeginu. Pavel skrifar undir tveggja ára samnig við Val.

Pavel Ermolinski er þekkt stærð í íslenskum körfubolta. Pavel hefur spilað með KR sl. 6 tímabil en þar áður lék hann sem atvinnumaður í Svíþjóð tvö tímabil, 5 tímabil á Spáni og eitt í Frakklandi. Uppeldisfélag Pavels er Skallagrímur. Pavel hefur leikið yfir 70 leiki með A landsliði Íslands auk þess sem hann spilaði með yngri landsliðum. Pavel hefur unnið til flestra einstaklingsverðlauna og liðsverðlauna sem eru í boði í körfuboltanum á Íslandi. Hann var leikmaður ársins árin 2011 og 2015 og í liði ársins fjórum sinnum á síðustu 8 tímabilum í deildinni.

Í tilkynningu Vals segir: „Valur hefur undanfarin ár verið að byggja upp körfuboltann innan félagsins. Iðkendum hefur fjölgað jafnt og þétt sl. misseri og í dag eru virkir körfuboltaiðkendur yfir 300 í félaginu. Öflugir þjálfarar hafa verið ráðnir til að sinna starfinu í yngri flokkunum. Það er mikilvægt að hafa öfluga meistaraflokka innan félagsins sem hvatningu fyrir unga iðkendur sem stefna hátt.“

Pavel hefur hampað Íslandsmeistaratitlinum síðustu sex ár með KR en hefur nú ákveðið að söðla um.

„Virkilega stemmdur og spenntur fyrir þessu. Það þekkja alir söguna hjá Val og er liðið að festa sig í sessi í öllum deildum og íþróttum. Þeir sannfærðu mig um að það væri hugur í þeim að gera vel og taka næsta skref. Þetta er góð áskorun og faratæki fyrir mig að halda áfram mínu og aðstoða liðið að ná þeim hæðum sem þeir vilja ná.“ sagði Pavel meðal annars við undirritun.

Viðtöl eftir undirskriftina eru væntanleg.

Fréttir
- Auglýsing -