Stjörnumenn tóku í kvöld á móti toppliði Dominos deildarinnar, KR-ingum. Fyrri leikur liðanna í Frostaskjóli var afskaplega jafn og spennandi, og því von á því sama í Garðabænum.
Stjörnumenn byrjuðu leikinn mun betur en gestirnir og tóku fljótlega nokkuð afgerandi forystu. KR-ingar gátu ekki keypt sér skot, hvað þá körfu, og stálu Stjörnumenn boltanum ítrekað af röndóttum. Heimamönnum gekk hins vegar sjálfum nokkuð illa að koma boltanum ofan í körfuna, og var leikurinn langt frá því að vera fallegur. Stjörnumenn höfðu þó forystu að loknum fyrsta leikhluta, staðan 20-14.
Annar leikhluti fer seint í sögubækurnar fyrir fallegan körfubolta. Liðunum gekk bölvanlega að skora stig, en KR-ingum gekk þó mun betur að ná skotum á körfuna heldur en í fyrsta leikhluta. Stjörnumenn höfðu lengst af um 10 stiga forystu í leikhlutanum, en KR-ingar tóku undir lok hálfleiks rosalegt áhlaup, og minnkuðu muninn í eitt stig, staðan í hálfleik 37-36.
Þriðji leikhluti var álíka ómerkilegur og annar fjórðungur hafði verið. Lítið var skorað og bæði lið gerðu sinn skerf af mistökum. Gestunum tókst þó að takmarka sín mistök meira en Garðbæingum og höfðu fimm stiga forystu fyrir lokafjórðunginn, 49-54.
Fjórði leikhluti var langáhugaverðasti fjórðungur þessa leiks. KR-ingar komust oft í 10 stiga forystu eða meiri, en þegar allir höfðu afskrifað Stjörnumenn komu þeir jafnharðan til baka. Að lokum tókst Stjörnumönnum að jafna leikinn, 75-75, þegar einungis 18 sekúndur lifðu af leiknum. KR-ingar fóru í sókn, og Junior Hairston braut á Pavel Ermolinski við þriggja stiga línuna. Þar sem gestirnir voru ekki komnir með skotrétt fengu þeir innkast, og einungis 5 sekúndur eftir. Pavel fékk þá boltann nokkuð fyrir utan þriggja stiga línuna, lét vaða og viti menn, boltinn fann ekkert nema net. Þarna lifði aðeins 1 og hálf sekúnda af leiknum, og geigaði lokatilraun Justins Shouse til að jafna leikinn. Sigur gestanna úr vesturbæ því staðreynd, 75-78.
Junior Hairston var stigahæstur Stjörnunnar með 22 stig, og tók að auki 13 fráköst. Martin Hermannsson var stigahæstur gestanna með 23 stig.
Umfjöllun – Elías Karl Guðmundsson



