spot_img
HomeFréttirPavel hugsanlega úr leik?

Pavel hugsanlega úr leik?

 Leikstjórnandi KR-inga Pavel Ermolinski bíður nú frekar frétta af þeim meiðslum sem hann varð fyrir í bikarleik KR og Stjörnunar nú um helgina. Þegar um 4 mínútur voru til loka leiks rann Pavel í teignum sem varð til þess að hann virtist þá hafa tognað aftan í læri.  Í Morgunblaðinu í morgun segir Pavel hinsvegar frá því að ekki liggi fyrir enn hvers eðlis meiðslin eru og jafnvel óttast Pavel að vöðvinn sé rifinn. 
 ”Ég verð eitthvað frá á næstunni. Ég á eftir að fara í myndatöku til að fá úr þessu skorið. Ef ég á að greina mig sjálfur þá er þetta eflaust eitthvað meira en tognun. Ég fann eitthvað gefa sig. Ég hef reynslu af meiðslum aftan í læri og hef bæði séð það svartara en einnig betra. Það mun taka mig einhvern tíma að jafna mig. Mig grunar að rifa sé í vöðvanum. Sé það tilfellið þá þarf að skoða hversu stór hún er og hvernig hún liggur. Það eru mín fyrstu viðbrögð en niðurstaðan á eftir að koma í ljós,”
 
Teigurinn í þessum úrslitaleikjum reyndist ekki bara Pavel erfiður, Ingibjörg Jakobsdóttir rann til í kvennaleiknum og yfirgaf völlinn með meiðsli og svo snemma í karlaleiknum rann Justin Shouse leikmaður Stjörnunnar til á þessum sama stað. 
 
Í versta falli þá yrði það augljóslega gríðarleg blóðtaka fyrir KR að missa Pavel í meiðsli það sem eftir lifir tímabils en Pavel er með að meðaltali þrennu á leik fyrir þá röndóttu, 13 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. 
 
Meira er hægt að lesa um málið í Morgunblaðinu í dag. 
Fréttir
- Auglýsing -