spot_img
HomeFréttirPavel getur allt!

Pavel getur allt!

Hólmarar mættu í Vesturbæinn í kvöld og öttu kappi við KR-inga. Bæði lið hafa sýnt betri tilþrif en í síðustu umferð, Hólmarar þurftu að sætta sig við tap gegn stóra bróður frá Höfuðstaðnum en KR-ingar sluppu naumlega frá innviðum Breiðholts með tvö stig. Það var því spennandi að sjá hvernig liðin kæmu stemmd í þennan leik.
 
 
Lítið var um varnir í fyrsta leikhluta. Magni og Nonni Mæju byrjuðu sterkt en með Brilla í góðum gír höfðu heimamenn stóru tána á undan. Pavel lauk fyrsta leikhluta með góðum þrist á lokasekúndunum og kom sínum mönnum í 30-26. Mikið skorað og spurning hvort menn voru ekki alveg með það á hreinu hver væri í hvaða liði, enda meira og minna allt saman fyrrum samherjar inn á vellinum!
 
Liðin héldu áfram að skora grimmt í öðrum leikhluta. Travis þriðji lék vel fyrir gestina, er þjófóttur í meira lagi og bauð upp á svakalega troðslu eftir stolinn bolta. Verst fyrir KR-inga að lögreglan mætti ekki í hús fyrr en í seinni hálfleik! KR-ingar létu þetta ekki slá sig út af laginu og Martin Hermanns henti niður tveimur þristum í röð og Pavel svaraði Travis með rússnesku útgáfunni af troðslu (já, hann getur allt en er sparsamur á troðslurnar, það er í ættinni). Snæfællingar voru eitthvað blóðlitlir á þessum kafla varnarlega og Nonni Mæju hætti að safna stigum og datt í villusöfnunarblætið. Magni bauð svo upp á eitt stykki iðnaðartroð til að bakka upp hina rússnesku og KR-ingar komnir í 50-42. Snæfellingar bitu hins vegar frá sér og nú var það Pálmi sem setti þrist í lok fyrri hálfleiks og minnkaði muninn í 51-49.
 
Gestirnir mættu ákveðnir til leiks í þriðja leikhluta. Travis sýndi að sennilega er allt þegar þrennt er og spilaði mjög vel. Nonni Mæju ákvað að byrja að skora aftur á meðan heimamönnum voru frekar mislagðar hendur sóknarlega á þessum kafla. Snæfellingar komust í 66-67 forystu þegar 2:30 voru eftir af leikhlutanum. Þeir fóru hins vegar illa að ráði sínu í framhaldinu og heimamenn enduðu sterkt, staðan 76-69 fyrir lokaátökin.
 
KR-ingar komu sér í þægilega stöðu fljótlega í fjórða og komu sér í hina andlega mikilvægu 10 stiga forystu. Varnarleikur virtist ekki vera mönnum mjög ofarlega í huga eins og fram hefur komið en gestunum var vissulega vorkunn að eiga við hávaxinn Pavel sem getur allt og baneitraðan Martin. KR-ingar fengu ítrekað galopin skot og Martin var hvað duglegastur við að nýta sér það. Snæfellingum til hróss hættu þeir hins vegar aldrei að berjast og héngu í heimamönnum. Gestunum til happs var vörn heimamanna lítið betri en gestanna og með þristum og ,,and1“ frá Svenna og Nonna Mæju tókst þeim að klóra sig inn í leikinn aftur, staðan 91-87 þegar 2:20 lifðu leiks. Mínútu síðar hafði Pavel hins vegar komið fjórum stigum á töfluna með góðum gegnumbrotum en gestirnir réðu illa við hann í kvöld. Hólmarar gerðu heiðarlega tilraun til brúargerðar síðustu eina og hálfa mínútuna en þetta 8 stiga bil reyndist þeim um megn og lauk leik með 99 stigum heimamanna gegn 93 gestanna.
 
Liðin buðu upp á ágætan leik fyrir áhorfendur í kvöld og eiginlega synd að leikurinn skyldi ekki verða lítið eitt meira spennandi í lokin. Pavel er eins og allir vita alger listamaður og átti stórkostlegan leik í kvöld. Hann skoraði 28 stig á allan mögulegan hátt, með tvistum, þristum, vítum og troðslu! Hann gaf 12 stoðsendingar og tók einnig 12 fráköst sem er allt að því tölfræðilega og fagurfræðilega fullkomið. Reyndar er leiðinlegt að drengurinn skyldi ekki klúðrast til að verja svo sem eins og eitt skot í leiknum. Martin var einnig mjög góður, skoraði 29 stig, setti 6 þrista í 12 skotum en ætlaði sér kannski stundum um of í gegnumbrotunum. Hann er ungur enn, kappsfullur mjög og einhverjum sentimetrum hærri í hjartanu en í loftinu.
Hjá gestunum var Travis þriðji atkvæðamestur með 26 stig, 7 stoðsendingar, 6 fráköst og 5 stolna. Flottur leikur hjá honum. Þó ekki sé minnst á Sigga Þorvalds fyrr átti hann líka fínan leik, skilaði jöfnu framlagi allan leikinn og endaði með 18 stig og 11 fráköst. Nonni Mæju átti svo ágæta spretti og skilaði 16 stigum.
 
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson
 
Mynd úr safni  
Fréttir
- Auglýsing -