spot_img
HomeFréttirPavel: Frammistaðan í vetur gefur okkur sjálfstraust

Pavel: Frammistaðan í vetur gefur okkur sjálfstraust

„Þetta var ekkert gefið mál og örugglega erfitt að velja einhvern úr KR liðinu til að taka við þessu enda erfitt að finna einhvern einn sem hefur skarað fram úr í liðinu,“ sagði Pavel Ermolinskij leikstjórnandi KR við Karfan.is í dag en þá var hann valinn besti leikmaður síðari hluta Domino´s deildar karla.
 
 
„Mér fannst ég taka við þessu fyrir hönd liðsins og get ekki með fullri samvisku tekið við þessum verðlaunum og verið eitthvað voðalega montinn því þetta eru ákveðin liðsverðlaun sem ég er að taka við,“ sagði Pavel hógvær. Óskar Ófeigur íþróttafréttamaður hjá Fréttablaðinu gerði athyglisverða úttekt á frammistöðu Pavels í treyju nr. 9 eða nr. 15 en báðir vilja þeir Pavel og Martin Hermannsson leika í treyju nr. 15. „Ég á ekki að vera að þvælast í öðru númeri og vona bara að Martin skilji það að það sé betra fyrir hann að ég spili í nr. 15,“ sagði Pavel léttur.
 
Þessa dagana dregur flest allt körfuknattleiksfólk djúpt að sér andann því úrslitakeppnin er framundan og þar þykja KR-ingar líklegir til afreka. „Jú þetta er logið á undan storminum, þetta skrímsli er að hefjast núna sem úrslitakeppnin er hér heima, þetta er allt annað fyrirbæri en deildin sjálf, allt annað en þessir venjulegu deildarleikir en úrslitakeppnin er skemmtilegri og leikirnir harðari og skemmtilegri fyrir alla hvort sem það eru leikmenn, dómarar, þjálfarar, fréttamenn eða aðrir.“
 
Sem deildarmeistarar, fara KR-ingar ekki kokhraustir inn í framhaldið?
„Jú jú, eðlilega, við erum búnir að vera flottir í vetur, bæði stöðugir og sannfærandi þannig séð og það gefur okkur bara sjálfstraust. Ég ætla ekki að segja að þetta sé eitthvert formsatriði hjá okkur, það er enginn svoleiðis hugsunarháttur í gangi en frammistaðan í vetur er bara að gefa okkur fullt af sjálfstrausti og smá hroka líka til þess að trúa því að við séum besta liðið.“
 
KR mætir Snæfell í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og mætast liðin í sínum fyrsta leik á fimmtudagskvöld í DHL-Höllinni:
 
„Snæfell hefur spilað undir getu í vetur ef maður rýnir yfir leikmannalistann en hvort sem það eru meiðsli eða annað sem hafa verið að hrjá liðið þá erum við að tala um lið í fyrsta og áttunda sæti þar sem við erum sigurstranglegri og eigum að vinna. Þessi rimma er samt ekki þessi klassíska 1 og 8 rimma því það eru margir rosalega sterkir leikmenn í liði Snæfells. Ég veit ekki hvað hefur verið að hjá þeim en hættan er sú að þetta smelli saman hjá þeim og í vikunni peppa þeir sig örugglega vel upp og ef þetta smellur hjá Snæfell erum við að tala um 50-50 seríu. Veðbankarnir eru klárlega okkar megin en við verðum að passa okkur á því að bera mjög mikla virðingu fyrir liðinu og leikmönnum þess en gerum engu að síður þá kröfu á okkur að sýna fram á þann styrktarmun sem er á liðum í fyrsta og áttunda sæti, þetta er fín lína sem þarf að dansa milli sjálfstrausts og virðingar.“
 
Við slepptum ekki takinu af Pavel fyrr en hann hafði rýnt í hinar þrjár seríurnar sem í boði verða í úrslitakeppninni:
 
Keflavík-Stjarnan
Þetta hafa verið flottar rimmur í gegnum tíðina og ákveðinn rígur kominn upp hjá liðunum. Stjarnan er ekki í óvsipuðum sporum og Snæfell en ef Garðbæingar ná að smella saman á réttum tíma þá er þetta ansi opin sería en ég tippa á að Keflavík nái að klára þetta.
 
Grindavík-Þór Þorlákshöfn
Grindvíkingar eru búnir að vera rosalega flottir, sérstaklega seinni partinn á tímabilinu, flottur stígandi og ég sé þá ekki tapa þessari seríu. Þór er ekki með nægilega mikla breidd til að hanga í jafn sterku liði og Grindavík og í svona seríu þarftu mikið frá mörgum svo ég sé Grindavík klára þetta.
 
Njarðvík-Haukar
Fyrirfram er þetta jafnasta rimman, Haukarnir eru flott og baráttuglatt lið og erfitt er að spila í Hafnarfirði en Njarðvíkurmegin mæðir þetta mikið á þremur kanónum. Ég tel að þetta verði 3-2 sería sem fari öðru hvoru megin eða þá að Njarðvíkingar klári þetta nokkuð auðveldlega, sérstaklega ef þeir spila eðlilegan og góðan bolta. Þetta fer auðvitað líka eftir Haukunum og þeir geta alveg verið ánægðir og stoltir með árangurinn sinn í vetur en ef þeir vilja meira og koma ákveðnir inn í seríuna gæti þetta orðið eitthvað.
  
Fréttir
- Auglýsing -