spot_img
HomeFréttirPavel fór mikinn í stórsigri KR gegn Njarðvík (Umfjöllun)

Pavel fór mikinn í stórsigri KR gegn Njarðvík (Umfjöllun)

 
KR burstaði í kvöld gesti sína úr Njarðvík 92-69 í Iceland Express deild karla. Pavel Ermolinskij fór mikinn með 35 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar í liði KR. Njarðvíkingar gerðu sig líklega til að komast upp að hlið KR í síðari hálfleik en heimamenn áttu fjórða leikhluta skuldlaust og unnu verðskuldaðan baráttusigur á Njarðvíkingum. Guðmundur Jónsson og Christopher Smith voru atkvæðamestir í liði Njarðvíkinga báðir með 22 stig.
Heimamenn komust í 14-8 snemma leiks þar sem Njarðvíkingar voru einsleitir í sókninni og þráðu ekkert heitar en að dæla boltanum inn á Christopher Smith sem oft hefur verið með betri nýtingu í teignum.
 
Guðmundur Jónsson minnkaði muninn í 18-15 með fimm stigum í röð fyrir Njarðvíkinga en Vesturbæingar leiddu 26-20 að loknum fyrsta leikhluta. Snemma í öðrum leikhluta fór að hitna vel í kofanum og stimpingarnar urðu töluverðar svo hægðist nokkuð á stigaskori liðanna. Þegar leið á leikhlutann sigu KR-ingar framúr, komust í 37-27. Ágúst Dearborn kom með smá baráttu inn í Njarðvíkurliðið en heimamenn kláruðu fyrri hálfleikinn af krafti og leiddu 50-38 í leikhléi þar sem Pavel var kominn með 15 stig og Marcus Walker 13. Hjá Njarðvík var Guðmundur Jónsson með 14 stig og Christopher Smith 12.
 
Njarðvíkingar byrjðu síðari hálfleik 7-2 og léku sterka vörn til að byrja með gegn heimamönnum. Lítið var skorað og Guðmundur Jónsson setti þrist og minnkaði muninn í 50-49 og allt stefndi í flottan og spennandi lokasprett þangað til KR-ingar hrukku í gang. Pavel Ermolinskij kom KR í 60-51 með þriggja stiga körfu og heimamenn leiddu svo 66-53 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Heimamenn héldu áfram á sömu nótum í fjórða leikhluta, léku þétta vörn og sigldu hægt og bítandi fram úr Njarðvíkingum. Sigur KR var aldrei í hættu í fjórða leikhluta og áttu þeir svör við öllu sem Njarðvíkingar sendu í átt til þeirra. Njarðvíkingum var því komið kyrfilega á jörðina eftir góðan sigur á Stjörnunni í Poweradebikarnum og KR komst á réttan kjöl eftir tap gegn Keflavík í síðustu umferð.
 
Með sigrinum er KR í 3. sæti deildarinnar með 8 stig en Njarðvíkingar í 10. sæti með 4 stig eins og Fjölnir og KFÍ.
 
Heildarskor:
 
KR: Pavel Ermolinskij 35/13 fráköst, Marcus Walker 19, Brynjar Þór Björnsson 12/5 fráköst/6 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 10/9 fráköst, Fannar Ólafsson 9/4 fráköst, Hreggviður Magnússon 5, Ólafur Már Ægisson 2, Jón Orri Kristjánsson 0/4 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 0, Ágúst Angantýsson 0/4 fráköst, Martin Hermannsson 0, Matthías Orri Sigurðarson 0.
 
Njarðvík: Guðmundur Jónsson 22/6 fráköst, Christopher Smith 22/8 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 6, Friðrik E. Stefánsson 5, Egill Jónasson 4, Jóhann Árni Ólafsson 3/4 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 3, Kristján Rúnar Sigurðsson 2, Lárus Jónsson 2, Páll Kristinsson 0, Ólafur Helgi Jónsson 2 0, Ágúst Hilmar Dearborn 0.
 
Dómarar: Einar Þór Skarphéðinsson og Eggert Þór Aðalsteinsson
 
 
Umfjöllun og myndasafn: [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -