Pavel Ermolinskij, Darri Hilmarsson og Brynjar Þór Björnsson hafa allir skrifað undir nýja tveggja ára samninga við Íslands- og deildarmeistara KR. Þá er Snorri Hrafnkelsson búinn að kvitta undir samning sinn við félagið en hann kemur til KR úr röðum Njarðvíkinga.

Böðvar Guðjónsson varaformaður KKD KR sagði samningana vera fagnaðarefni: „Kjarni Íslandsmeistara KR undanfarinna tveggja ára er því saman til næstu tveggja ára og eflaust lengur því Helgi Már Magnússon er á sínu öðru ári á samningi við félagið. Það er mikil tilhlökkun í herbúðum KR fyrir komandi tímabili og reikna má með að Mike Craion verði einnig með liðinu á næsta tímabili,“ sagði Böðvar en eins og allir vita er Craion á meðal sterkustu leikmanna deildarinnar og ríkjandi meistarar því búnir að senda hávær skilaboð inn í deildina.
Mynd/ KR – Brynjar Þór Björnsson gat ekki verið með við myndatökuna þar sem hann gerir það víðreist um landið en frá vinstri eru Pavel Ermolinskij, Darri Hilmarsson og Snorri Hrafnkelsson.



