,,Mér fannst ÍR verðugur andstæðingur en við verðum að hafa í huga að þetta var fyrsta liðið á móti áttunda svo þeir voru alltaf smá ,,underdogs“ en þetta er úrslitakeppnin þar sem allt getur gerst. Það var samt ljóst að ef við myndum spila fast og spila okkar leik þá ættum við að taka þetta,“ sagði Pavel Ermolinskij í samtali við Karfan.is eftir sigur KR á ÍR 81-103 í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla. KR er þar með komið í undanúrslit en ÍR í sumarfrí.
,,Þetta er svo sterk deild í ár að það skiptir engu hverjum maður mætir í næstu umferð því ég sá t.d. Njarðvíkinga spila um daginn en þeir voru virkilega sannfærandi en enduðu samt í 5. sæti deildarinnar. Ég á mér því enga óskamótherja því þetta verða allt erfiðir leikir hvort sem er. Eins og ég hef alltaf sagt þá skiptir það ekki máli á móti hverjum við spilum svo framarlega sem við leikum okkar bolta,“ sagði Pavel sem skoraði 20 stig, tók 16 fráköst og gaf 6 stoðsendingar fyrir KR í leiknum.
Í dag voru fimm leikmenn í liði KR sem gerðu 13 stig eða meira í leiknum, KR-ingar hljóta að vera sáttir við svoleiðis framlög?
,,Það er virkilega gott því það þýðir að ef einhver í hópnum er ekki að standa sig þá eru aðrir að stíga upp svo það þyrftu eiginlega allir að eiga ömurlegan leik til þess að KR liðið leiki illa. Það eru alltaf einn eða tveir inni á vellinum sem eru að skora og spila vel sem er mjög gott fyrir okkur og sérstaklega mig því þá get ég bara fundið þá leikmenn,“ sagði Pavel sáttur í leikslok en KR-ingar voru í dag fyrstir til þess að tryggja sig inn í undanúrslitin.



