spot_img
HomeFréttirParketlagt Síki vígt á sunnudag

Parketlagt Síki vígt á sunnudag

 
Nú hyllir undir það að íþróttahúsið á Sauðárkróki, Síkið, verði opnað aftur eftir parketlögn og hefur verið ákveðið að slá upp vígsluleikjum á sunnudaginn en leikirnir verða jafnframt til fjáröflunar fyrir styrktarsjóð Magnúsar Jóhannessonar og fjölskyldu. Eru það bæði karla- og kvennalið Snæfells sem koma í heimsókn. www.tindastoll.is greinir frá.
Kl. 17.15 hefst leikur framtíðarmeistaraflokks Tindastóls og Iceland Express deildarliðs Snæfells í kvennaflokki. Helga Einarsdóttir, sem lék alla sína yngri flokka með Tindastóli og er núna A-landsliðskona og annar fyrirliða KR í Iceland Express deildinni ásamt Margréti Köru Sturludóttur, mun spila með heimastúlkum í Tindastóli og verður án efa gaman að sjá Helgu á nýjan leik í Tindastólsbúningnum ásamt framtíðarleikmönnum meistaraflokksins, sem fá þarna verðugt verkefni. Tindastólsliðið verður annars skipað leikmönnum frá 8. flokki og upp í stúlknaflokk. Snæfell verður án þriggja sterkra leikmanna, þeirra Hildar Sigurðardóttur, Öldu L. Jónsdóttur og erlends leikmanns.
 
Kl. 19.15 munu lið Tindastóls og Snæfells í karlaflokki leiða saman hesta sína og verður þar án efa um hörkuleik að ræða. Snæfellsliðið er gríðarlega sterkt og hefur á að skipa mörgum frábærum leikmönnum. Trey Hampton sem Tindastólsliðið hefur samið við fyrir veturinn kom á Krókinn á þriðjudaginn var og mun spreyta sig í fyrsta skiptið með liðinu á sunnudaginn. Keflvíkingurinn Þröstur Leó Jóhannsson mun einnig leika sinn fyrsta leik á heimavelli á sunnudaginn.
 
Fréttir
- Auglýsing -