spot_img
HomeFréttirPálmi: Til eftirbreytni að skjóta með vinstri

Pálmi: Til eftirbreytni að skjóta með vinstri

Eftir kvöldið í kvöld verða ákveðin vatnaskil því Pálmi Freyr Sigurgeirsson ætlar að venda kvæði sínu í kross og setja körfuboltaskó sína upp á hillu. Snæfell – Grindavík verður því lokaleikur kappans eftir 19 ára feril! Pálmi er með þrjá Íslandsmeistaratitla á afrekaskránni, sá fyrsti 2007 með KR og aftur 2009 og árið 2010 varð Pálmi tvöfaldur meistari með Snæfell þegar Hólmarar lönduðu fyrsta Íslandsmeistaratitlinum í sögu félagsins.
 
 
„Þetta er orðinn langur tími,“ sagði Pálmi við Karfan.is í dag. Kappinn hefur verið nokkuð heppinn og ekki verið mikið frá þessi nítján ár sem nú eru að baki. „2009-2010 voru það bakmeiðsli, tognað liðband sem hélt mér frá í 6 vikur árið 2004 og svo haustið 2012 var smá bakvesen líka,“ sagði Pálmi sem á ferlinum hefur leikið með þremur liðum, Breiðablik, KR og Snæfell og telur það alls 331 deildarleik.
 
Hvað með að hætta, hvað með bakteríuna, verður þú ekki byrjaður aftur fljótlega?
„Ég held mér takist endanlega að hætta, ég veit líka lítið hvað tekur við næsta haust en maður er að huga að öðru eins og t.d. námi svo ég reikna ekki með að vera neitt í körfubolta og segi þetta bara gott núna. Ég er líka sáttur eftir allan þennan tíma, hef haldist nokkuð heill, engin stórvægileg meiðsli svo þessi tími hefur verið góður,“ sagði Pálmi en hvað er það sem stendur upp úr?
 
„Að sjálfsögðu titlarnir og ég get ekki gert upp á milli þeirra, lít bara sæll til baka, glaður og með góðar minningar,“ sagði Pálmi sem byrjaði meistaraflokksgöngu sína liðlega 18 ára gamall. Hann hefði að sjálfsögðu viljað kveðja með þátttöku í úrslitakeppninni.
 
„Mér fannst við eiga meira inni en við sýndum í vetur, við vorum á ágætis róli fljótlega eftir áramótin en svo bara duttum við niður og náum okkur ekki aftur á strik. Þetta eru hvað sjö tapleikir í röð núna og miðað við formið á okkur fyrir þessa taphrinu var ekki slæmt að vera í kringum 5.-6. sæti. Það eru klárlega mikil vonbrigði að enda tímabilið svona en það er engin eftirsjá þegar maður lítur til heildar á ferilinn. Vissulega hefði ég viljað fara í úrslitakeppnina núna sem er hrikalega skemmtileg.“
 
En hver er það núna sem tekur við sem hin stóíska rósemdar vinstrihandar skytta í deildinni þegar „Kaiserinn“ eins og margir kalla hann kveður deildina?
 
„Það eru t.d. nokkrir ungir og efnilegir í Hólminum sem gera þetta með vinstri enda er það bara til eftirbreytni að skjóta með vinstri,“ sagði Pálmi sem hélt sjálfur að honum hefði ekki tekist á þessum nítján árum að landa þrennu. Kemur hún í kvöld?
 
„Ég held bara að ég hafi aldrei verið með þrennu, hef nokkrum sinnum verið nálægt því en þá er bara kominn tími á að kveðja með þrennu og troðslu.“ Pálmi hefur heldur ekki troðið í leik á ferlinum en vonandi hjálpa liðsfélagar hans til við að breyta því eftir kvöldið!
 
Snæfell tekur á móti Grindavík í Hólminum í kvöld og er þess að vænta að Hólmarar kveðji sinn mann vel og innilega.
  
Fréttir
- Auglýsing -