Skallagrímsmenn greindu frá því í gær að félagið hefði losað sig við Bandaríkjamanninn Haminn Quaintance. Haminn vakti athygli um leið og hann kom inn í íslenska boltann og skilaði strax sterkum tölum en það seig á ógæfuhliðina og í gær kom það úr dúrnum að Borgnesingar gætu ekki lengur við unað virðingarleysi og framkomu leikmannsins. Nýliðar Skallagríms klára því tímabilið í deild sem leyfir tvo erlenda leikmenn inni á vellinum hverju sinni. Pálmi Þór Sævarsson þjálfari Skallagríms sagði við Karfan.is að nú fengju íslensku leikmenn liðsins verðugt verkefni.
,,Við keyrum þetta með Carlos Medlock það sem eftir er og nú fá íslensku strákarnir verðugt verkefni, meiri mínútur og meiri ábyrgð. Ég er virkilega spenntur fyrir þessari áskorun og við ætlum bara að berja okkur saman og njóta þess að spila körfubolta það sem eftir lifir vetrar. Við munum ekkert gefa eftir í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni!”
Skallagrímsmenn eru um þessar mundir í 8. sæti Domino´s deildar karla með 12 stig, 6 sigra og 8 tapleiki.



