,,Í raun má alveg segja að hvorugt liðið virðist eiga heimavöll í þessari seríu því hann virðist ekki skipta máli, þetta var samt fyrsti jafni leikurinn í seríunni en hinir tveir sýndu að bara annað liðið mætti klárt í þá leiki,“ sagði Pálmi Freyr Sigurgeirsson í samtali við Karfan.is eftir 77-81 sigur Snæfells á KR í DHL-Höllinni í dag. Pálmi gerði 5 stig í leiknum og 3 þeirra komu af vítalínunni þegar allt var í járnum. Snæfell leiðir einvígið 2-1.
,,Núna var þetta bara jafn leikur og við vorum sterkari í lokin. Ég átti svo alveg von á því að þessi leikur yrði jafnari en fyrstu tveir og líka að minna yrði skorað. Þetta eru tvö jöfn og góð lið þar sem heimavöllurinn virðist ekki skipta máli en nú eigum við heimaleik á mánudag og við ætlum svo sannarlega að vinna þann leik fyrir framan okkar stuðningsmenn í Hólminum, ekki spurning,“ sagði Pálmi en er hann sáttur við hvernig Snæfellsliðið bregst við því að KR dekki vel Sean Burton sem hefur sig ekki mikið í frammi?
,,Við erum með gott lið og margir sem geta tekið af skarið og við erum ekki endilega háðir því að Burton sé með 20 stig og 18 af þeim úr þristum. Hann opnar fyrir aðra í liðinu þegar KR spilar svona stíft á hann, menn stigu bara upp í dag og kláruðu dæmið,“ sagði Pálmi sáttur í leikslok en liðin mætast að nýju í Stykkishólmi á mánudag.
Ljósmynd/Tomasz Kolodzejski: Pálmi var sáttur í leikslok.



