spot_img
HomeFréttirPálmi: Mætum sterkari til leiks næsta vetur

Pálmi: Mætum sterkari til leiks næsta vetur

Pálmi Þór Sævarsson var að ljúka sínu fyrsta tímabili sem þjálfari í úrvalsdeild í kvöld er lærisveinar hans í Skallagrím féllu úr leik í 8-liða úrslitum Domino´s deildarinnar.  Pálmi stýrði liðinu upp úr 1. deild í fyrra og fór með það í úrslitakeppnina sem verður að teljast nokkuð vel af sér vikið hjá ungum og reynslulitlum þjálfara. Fréttaritari karfan.is í Borgarnesi settist niður með kappanum eftir leikinn í kvöld og spurði fyrst hver væru hans fyrstu viðbrögð að leikslokum.
 
,,Ég er auðvitað svekktur með úrslitin, fannst vanta svolítinn kraft í okkur á köflum.  En ég er anægður með að leikmenn lögðu sig alla fram og gáfust ekki upp þó á móti blési.  Það var fullt af góðum hlutum í þessu og þetta er góð reynsla fyrir okkar ungu leikmenn.”
 
En hvað viltu segja um tímabilið í heild. Ertu sáttur?
,,Eftir allt sem á undan er gengið er ég bara nokkuð sáttur heilt yfir. Við lentum í miklum meiðslum og allskonar veseni.  Ungu strákarnir í liðinu Davíð Ásgeirs, Birgir, Orri og Davíð Guðmunds hafa þessvegna fengið meira að spila og aukna ábyrgð.  Þeir hafa staðið sig vel og lofa góðu fyrir framtíðina.  Við mætum sterkari til leiks næsta vetur og náum vonandi að bæta við okkur einhverjum sterkum leikmönnum.  Svo vil ég minnast á stuðningsmannasveit Fjósamanna. Þeir eru búnir að vera alveg frábærir í vetur, klárlega bestu stuðningsmenn landsins. Stuðningur Borgnesinga er ómetanlegur í þessari baráttu.  Svo vil ég að lokum óska Grindvíkingum til hamingju með sigurinn.  Þeir hljóta að verða meistarar fyrst þeir gátu unnið okkur,” sagði Pálmi nokkuð kátur í kampinn eftir veturinn.
 
Karfan.is leitaði viðbragða hja Sverri Þór Sverrissyni þjálfara Grindavíkur eftir að liðið tryggði sér sæti í undanúrslitum með sigri í Borgarnesi í kvöld.
 
,,Ég bjóst auðvitað við hörkuleik hér í Borgarnesi í kvöld.  Þeir með bakið uppvið vegg og urðu að vinna.  Bjóst ekki við svona stórum sigri.  En mínir menn létu boltann ganga vel og við fengum góð skot.  Svo var hittnin náttúrulega mögnuð,” sagði Sverrir býsna sáttur með að vera kominn áfram í keppninni en Grindavík mætir KR í undanúrslitum.
 
 
Ragnar Gunnarsson
  
Fréttir
- Auglýsing -