,,Það er ótrúlegt að við skyldum vinna í Keflavík með 36 stiga mun, við hittum bara á okkar besta leik á tímabilinu og það var alveg frábært. Við fórum samt ekki á taugum þrátt fyrir tapið í fjórða leik sem voru mikil vonbrigði,“ sagði Pálmi Freyr Sigurgeirsson í samtali við Karfan.is í gærkvöldi eftir að Snæfell hampaði Íslandsmeistaratitlinum. Pálmi kvittaði svo í dag undir nýjan tveggja ára samning við Snæfell en kappinn varð einnig Íslandsmeistari með KR í fyrra og árið 2007.
Varðandi fjórða leikinn og tapið í honum á heimavelli, voru Hólmarar mögulega með dansskónna inni í klefa og tilbúnir að fagna eftir leikinn?
,,Nei nei, alls ekki. Við vorum alveg á jörðinni fyrir fjórða leikinn en það var mikið ,,hype“ í kringum leikinn og maður tók bara þátt í því. Við vorum ekkert byrjaðir að hugsa hvað við ætluðum að gera eftir leikinn því við vissum að við þyrftum að vinna erfitt Keflavíkurlið. Við höfðum síðan alltaf trú á því að við myndum vinna oddaleikinn því við höfum staðið okkur vel á útivöllum,“ sagði Pálmi en hafði hann, ásamt fleirum sem héldu vestur í Hólm fyrir leiktíðina, trú á því að þeir væru að hefja eitthvað stórt?
,,Já já, alveg hiklaust, við erum með besta leikmanninn í deildinni og Hlynur hefur verið á meðal þeirra bestu núna í mörg ár og þessi vetur var hans langbesti fannst mér. Auk þessa vissi maður að liðið hafði frábæra leikmenn en það vantaði alltaf eitthvað smávegis til þess að Snæfell yrði meistaralið og við náðum því núna þar sem Ingi náði að smíða saman gott lið. Nú erum við meistarar og það er tilfinning sem maður fær aldrei leið á,“ sagði Pálmi sem nú hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari á fjórum tímabilum.
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Pálmi með þann stóra í þriðja sinn á fjórum árum.



