Haiden Palmer fór með himinskautum í Hólminum í kvöld þegar Snæfell tryggði sér oddaleik í úrslitum Domino´s-deildar kvenna. Snæfell lagði Hauka 75-55 í fjórðu úrslitaviðureign liðanna þar sem Palmer var með 35 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar. María Lind Sigurðardóttir fór fyrir Haukum með 22 stig og 5 fráköst en þetta var hennar stigahæsti leikur á tímabilinu. Þá er ljóst að við höldum til oddaleiks í DB Schenkerhöllinni næsta þriðjudag þar.
Varnarleikur Hólmara var hreint afbragð í dag og héldu Snæfellingar gestum sínum í aðeins 55 stigum. Haukar settu aðeins 2 af 19 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og þó þær María (22) og Helena (19/16) hafi verið að skila fínum tölum þurftu Haukar á fjölbreyttara framlagi að halda en sóknarleikur þeirra var oft þröngt skipaður sem gerði þéttri vörn Snæfells verkið oft auðveldara.
Heimakonur í Snæfell fóru betur af stað og komust í 13-4 eftir þrist frá Bryndísi Guðmundsdóttur og voru þá staddar á 11-0 áhlaupi en þá var Ingvari Guðjónssyni ekki stætt lengur og kallaði á Haukana í leikhlé. Hafnfirðingar liðkuðust nokkuð við ræðu Ingvars og þá einkum og sér í lagi María Lind Sigurðardóttir sem hóf að setja nánast allt niður í teignum sem hún sleppti á loft. Hólmarar leiddu engu að síður 17-13 eftir fyrsta leikhluta með öflugum varnarleik þar sem María Björnsdóttir var í hörkugír.
María Lind lét ekki deigan síga og setti fimmta teigskotið sitt í röð snemma í öðrum leikhluta og jafnaði metin 19-19 fyrir Hauka. Snæfell sleit sig frá að nýju og leiddi 30-24 í háflleik. Haukar tóku aðeins tvö vítaskot í fyrri hálfleik en Hafnfirðingar hafa fengið furðulega lítið af vítaskotum í Hólminum í vetur og það verður vísast ekki allt hermt upp á dómara leiksins, þetta segir líka þá sögu að þær þurfi að sækja af meiri festu á hringinn.
Haiden Palmer var með 11 stig í hálfleik í liði Snæfells og 6 fráköst en næst henni var Berglind Gunnarsdóttir með 7 stig. Hjá Haukum var María Lind með 14 stig og fyrirmyndarnýtingu eða 7-9 í teigskotum sínum og 3 fráköst. Næst kom Helena Sverrisdóttir með 4 stig og 8 fráköst.
Skotnýting liðanna í hálfleik
Snæfell: Tveggja 35% – þriggja 36% – víti 50% (2-4)
Haukar: Tveggja 37% – þriggja 9% (1-11) – víti 50% (1-2)
Snæfell vann þriðja leikhluta 20-15. Helena Sverrisdóttir setti sinn fyrsta þrist í leiknum í þriðja leikhluta og einn af aðeins tveimur þristum Hauka í kvöld. Þar minnkaði hún muninn í 39-29 en nokkuð brölt og braml var á liðunum í þriðja leikhluta og liðsmenn farnir að blása nokkuð vel sem sýndi sig í þónokkrum færum í námunda við körfuna sem gekk illa að klára. Snæfell lokaði þriðja 50-39 og nokkuð ljóst að Haukar þyrftu að brydda upp á einhverju nýju til þess að komast nærri.
Haukar mættu með svæðisvörn til leiks í upphafi fjórða leikhluta og það tók meistara Snæfells smá tíma að lesa í varnarleik gestanna. María Lind kom muninum undir tíu stig með teigskoti og var þarna búin að klukka 22 stig fyrir Hafnfirðinga. Þrátt fyrir nýjungar Hauka í fjórða leikhluta lét Snæfell ekki forystuna af hendi, Palmer var einfaldlega við stýrið á þessu öllu saman og kórónaði frábæran leik sinn er hún kom Snæfell í 71-55 með körfu og villu að auki. Lokatölur reyndust svo 75-55, mögnuð frammistaða Hólmara og nú er að sjá hvort að heimasigrar liðanna haldi áfram á þriðjudag eða hvort það verði útivallasigur í fyrsta sinn í rimmum þessara liða?
Tölfræði leiksins
Bein textalýsing leiksins (með myndum)
Viðtal – Berglind Gunnarsdóttir, Snæfell
Viðtal – María Lind Sigurðardóttir, Haukar
Umfjöllun / Jón Björn