Fyrrum landsliðsmaðurinn Páll Kristinsson snýr aftur á parketið í kvöld íklæddur Njarðvíkurbúning þegar grænir mæta Haukum í Schenkerhöllinni eftir örstutta stund. Páll hefur að sögn Einars Jóhannssonar æft með Njarðvíkurliðinu að undanförnu en þar öðlast ungt Njarðvíkurlið mikla reynslu. Páll hefur sem sagt tekið fram skónna á nýjan leik til að hjálpa uppeldisklúbbnum en að lokinni síðustu leiktíð var það gefið út að kappinn væri hættur.
,,Þetta kom nú bara þannig til að hópurinn okkar var í haust 14 menn en við erum búnir að vera 12 á nýju ári og þar af er Rúnar Ingi í vaktavinnu og svo er mikið álag á þessa ungu stráka spilandi í meistaraflokki, unglingaflokki og sumir hverjir í drengjaflokki auk þess sem Maciej er enn í 11.flokki. Palli kom inn á æfingar fyrir rúmum hálfum mánuði með það fyrir augum að stækka aðeins æfingahóp og við sáum svosem strax og vissum að hann gæti hjálpað okkur í baráttunni sem framundan er,“ sagði Einar Árni Jóhannsson annar tveggja þjálfara Njarðvíkurliðsins í samtali við Karfan.is.
,,200 cm eru fyrir það fyrsta vel þegnir og ekki skemmir fyrir sá dugnaður, varnarleikur, frákastavinna og reynsla sem Palli kemur með inn í hópinn. Hann er samt orðinn 36 ára og við tökum þetta meira svona dag fyrir dag en hann er allavega í hóp í fyrsta sinn í kvöld gegn Haukum og hjálpar okkur í baráttunni fyrir tveimur stigum.“