spot_img
HomeFréttirPáll: Misstum algerlega stjórn á þessu

Páll: Misstum algerlega stjórn á þessu

 
Æðruleysið uppmálað sagði Páll Kolbeinsson þjálfari KR að það væri fínt að klára bara lélega leikinn fyrst. Átti hann þar við 84-102 ósigur KR gegn Snæfell í DHL-Höllinni í kvöld þar sem Snæfell leiðir nú einvígið 1-0.
,,Það voru tveir menn hjá mér sem mættu tilbúnir í slaginn, það voru Jón Orri og Finnur, restin var bara ekki tilbúin,“ sagði Páll og vonbrigðin leyndu sér ekki. ,,Við fórum að þröngva boltanum mikið og vorum að leita á varnarmennina hjá Snæfell sem voru komnir í villuvandræði. Ég er ekki ánægður með það því ég vil halda okkur við okkar sóknarleik en í kvöld vorum við að drippla of mikið,“ sagði Páll en pressa Snæfells á Pavel Ermolinskij var mikil og vildi Páll sjá betri svörun við því.
 
,,Það eru margir sem geta gert miklu betur og við eigum t.d. Brynjar alveg inni eftir þennan leik en við vorum líka að misnota mörg opin skot, í það heila var varnarleikurinn mjög slakur. Við eigum að geta unnið Snæfell hvenær sem er því við sýndum það í Hólminum um daginn þegar við vorum með bakið upp við vegg, við bara misstum algerlega stjórn á þessu í síðari hálfleik í kvöld,“ sagði Páll en hefur hann ekki trú á því að margreyndir leikmenn sem finnist í hans herbúðum svari svona frammistöðu strax í næsta leik?
 
,,Það er nú bara þannig að þeir menn sem ekki stóðu sig í kvöld voru búnir að lofa því að mæta klárir en þetta eru leikmenn á borð við Fannar Ólafsson, Tommy Johnson og fleiri. Þessir menn komu bara ekki klárir og ég treysti því bara að þeir mæti tilbúnir í næsta leik,“ sagði Páll en víða var pottur brotinn í leik KR-inga í kvöld þó einna helst í varnarleiknum.
 
Fréttir
- Auglýsing -