spot_img
HomeFréttirPáll Ketilsson: Spurning um Njarðvíkurgrýluna

Páll Ketilsson: Spurning um Njarðvíkurgrýluna

 
Þriðji spekúlantinn í röðinni fyrir stórslag Keflavíkur og Njarðvíkur í kvöld er Páll Ketilsson, eigandi og ritstjóri Víkurfrétta á Suðurnesjum. Í tæplega þrjá áratugi hafa Víkurfréttir fylgst með erkifjendunum há þá marga hildina og bætist enn einn grannaslagurinn í sarpinn í kvöld.
Páll um leik kvöldsins:
 
Spennustigið verður í hæstu hæðum í Toyota höllinni í kvöld. Njarðvík er búið að vinna tvo leiki þessara gömlu nágranna á þessari leiktíð og með tilkomu Nicks Bradford þá er ljóst að liðið er erfitt viðureignar og sennilega besta lið deildarinnar núna. Hins vegar hef ég fulla trú á Keflvíkingum ef þeir gleyma Njarðvíkurgrýlunni sem kemur oft og hrellir þá með því að loka Njarðvíkurkörfunni í þessum leikjum.
 
Sem Keflvíkingur, ekki fréttamaður, þá hef ég strítt Njarðvíkingum sem ég hef hitt að undanförnu og sagt að þetta verði Keflavík gegn hálfu Keflavíkurliði með Njarðvíkuruppfyllingu. Þarna eru Maggi Gunn og Bradford og svo Siggi þjálfari en þeir voru allir saman eitt árið þegar Keflavík vann Íslandsmeistaratitilinn. Ég hef gaman að því að skella þessu framan í harða Njarðvíkinga eins og og Ella Hannesar og Þórunni Þorbergs. Ég viðurkenni að líkurnar á Njarðvíkursigri eru meiri, spái því að leikurinn verði jafn en vona samt að Keflavík klári hann og svo titilinn.
 
Siggi Ingimundar er reynslubolti í þjálfun og þekkir Keflavíkurliðið. Hann tók ýmislegt með sér úr heimabænum yfir í Njarðvíkurnar, varnartaktík og eitthvað fleira. Gaui leynir á sér þó þjálfarareynslan sé minni. Innáskiptingar geta haft áhrif í svona leik. Það getur þurft að kæla menn í æsingi og þá kemur innsýn þjálfara inn í málið.
 
Ef við tölum um match-up þá er það í svona leikjum sem menn eins og Gunnar Einarsson og Magnús Gunnarsson eiga að toppa. Ég bið Magga að fyrirgefa mér þó ég voni að Gunni toppi en ekki hann. Ef Gunni klikkar hins vegar bíða hans erfiðir dagar hér í vinnunni hjá VF. Held að þetta geti líka orðið útlendingaslagur þó Bradford og Burns séu ólíkir. Þeir gætu tekið það upp hjá sér að klára þennan leik. Svo má náttúrulega ekki gleyma baráttu stóru mannanna, Sigga Þorsteins og Frikka Stef. Hún verður forvitnileg.
 
Ég hlakka mikið til og við á www.vf.is verðum í aksjón með myndavélar og allan pakkann á þessum stórleik.
 
Ljósmynd/ Páll er mikill golfari en Víkurfréttir halda m.a. úti golffréttasíðunni www.kylfingur.is  
Fréttir
- Auglýsing -